Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Morðtilraun í Mosfellsbæ: „Það er eins og við séum komin í sláturhús“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eins og Mannlíf greindi frá í gær var ráðist á ungan mann inn á heimili kærustu hans í Mosfellsbænum á aðfaranótt miðvikudags á meðan börn þeirra sváfu í næsta herbergi en árásarmennirnir voru tveir. Parið telur að um morðtilraun sé að ræða. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu staðfesti í samtali við Mannlíf að hún væri með málið til rannsóknar en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um það.

Mannlíf ræddi við kærustu mannsins sem ráðist var á og sagði hún frá þessari hörmulegu lífsreynslu sem þau þurftu að ganga í gegnum.

Báðir árásarmennirnir voru vopnaðir

„Við vorum heima á þriðjudagskvöldið og fórum snemma að sofa. Vorum bæði þreytt og fórum að sofa um hálftíu leytið,“ sagði kærasta mannsins um árásina. „Síðan vakna ég við kveikt ljós inn í herberginu okkar. Karlinn sefur svolítið fast og hann vaknaði ekki við það. Þá sé ég tvo menn komna inn, annar hylur andlit og er með hettu en ekki hinn. Þeir hjóla strax í hann með vopnum. Þeir voru báðir vopnaðir. Það var allavega kylfa, ég held að það hafi verið skrúfjárn og hamar. Þeir stoppa ekkert, þeir negla endalaust í hann við hliðina á mér í rúminu. Ég var að reyna að klípa mig því ég var að reyna átta mig á því hvort þetta væri raunverulegt eða draumur.“

„Hann sagði mér eftir á að honum leið eins og hann hafi verið að dreyma eitthvað fyrst,“ sagði konan og að kærasti sinn hafi ekki vaknað við fyrstu höggin.

„Síðan vaknar hann og þá reynir hann að smeygja sér undan höggunum, það er náttúrulega allt í blóði. Það er eins og við séum komin í sláturhús. Hann endar á gólfinu við lappirnar þar sem ég ligg með hausinn þar sem svalahurðin er hjá okkur og þeir halda bara ítrekað áfram. Þetta eru ekkert fá högg. Þetta var endalaust og með vopnum. Hann kann að verja sig, sem betur fer, þannig að þetta fór ekki verr. Hann var með hendurnar á réttum stað.“

- Auglýsing -

Sóttu borvél

„Annar byrjar að „tappa“ í hinn „Jæja, þetta er komið gott“ en segir aldrei neitt,“ sagði konan um árásina. „Síðan fara þeir báðir eitthvað pínu frá og annar þeirra nær í borvél og byrjar að bora í löppina. Ég veit ekki hvort það hafi verið eitthvað á henni. Hann nær að sparka henni í burtu. Hinn er eitthvað að svipast um og ég að biðja þá að stoppa og börnin mín séu í næsta herbergi og að þetta sé komið gott sama hvað þetta snýst um,“ en að sögn konunnar vöknuðu börn þeirra ekki upp við árásina.

„Ég hugsaði bara „Ég vil að þið farið“ en gat ekki öskrað neitt, ég vildi ekki að stelpurnar myndu vakna. Einhvern veginn endar þetta þannig að hann nær að teygja sig í svalahurðina sem var pínu rifa á og nær að öskra út á svalir og þá hlaupa þeir út. Ég hleyp á eftir þeim og ætla að athuga hvort þeir séu á bíl en ég sá það ekki. Svo fer ég beint inn til stelpnanna og þær eru ennþá sofandi. Svo hringi ég í sjúkrabíl og hann er bara allur í hönki. Þetta var hræðilegt.“

- Auglýsing -

Vita ekki af hverju ráðist var á hann

„Sjúkrabíll kemur og svo kemur löggan. Síðan fara þeir með hann þegar þeir eru búnir að skoða hann á sjúkrahús og löggan er eftir hjá mér og er að taka myndir af vettvangi. Síðan þurftum við að bíða eftir rannsóknarlögreglu og síðan barnaverndarnefnd. Við vitum ekki um hvað þetta snýst. Við vitum bæði hver annar aðilinn er en hann hitti hann seinast fyrir hátt í tveimur árum síðan,“ en sögn konunnar er lögreglan búinn að handtaka annan árásarmanninn og er það sá sem parið þekkir og er Íslendingur. Ekki liggur fyrir hver hinn árásarmaðurinn er en upphaflegar heimildir Mannlífs hermdu að hann væri erlendur en að sögn konunnar er ómögulegt fyrir hana að staðfesta það.

„Lögreglan tilkynnti mér það að þeir ætluðu að eyða öllu sínu púðri í að finna út úr þessu og þeir tækju þessu mjög alvarlega og þetta sé mjög alvarlegt brot.“

Húsið var merkt með límbandi

„Það var búið að setja „teip“ á rúðuna hér fyrir utan, ég veit ekki hvað það þýðir en það var ekki þarna áður. Í kringum nöfnin hjá mér og stelpunum. Því hann er ekki skráður hér, hann er ekki búsettur hér. Þeir hljóta að hafa fylgst eitthvað með til að vera vissir um að hann væri á heimilinu og vera vissir um að hann sé sofandi. Þetta er mjög furðulegt mál.“

Þetta er svo mikill aumingjaskapur að mæta inn á heimili þar sem börn eru og þar sem fjölskylda býr,“ hélt konan áfram. „Það er ekki það sama og banka upp á og fá aðilann að koma tala við sig ef það er eitthvað ósætti. Það að mæta með annan mann með sér og vopn þar sem lítil börn búa og konan liggur við hliðina á í rúminu. Þeir vissu að ég byggi þarna, það stendur á hurðinni.

Væri dauður ef hann kynni ekki að verja sig

„Hann er með tæplega 30 spor í haus, mestmegnis í andliti,“ sagði konan aðspurð um áverka kærasta síns eftir árásina. „Hann er mjög bólginn og hendurnar á honum eru í takt við það. Ef hann hefði aldrei æft neinar slagsmálaíþróttir eða kynni ekki að verja sig þá væri hann dauður, það er bara þannig. Ef hann hefði rotast þá væri hann dauður, þetta voru það mörg högg en sem betur fer var hann með hendurnar á réttum stað. Þumalputtinn á vinstri hönd er eins og læknirinn orðaði það „mölvaður.“

„Þumallinn er í það mörgum pörtum að þeir vita ekki hvað þeir geta gert til að fá sem besta niðurstöðu fyrir hann. Svo er hann pípari og þeir geta ekki sagt við okkur að það verði ekki varanlegur skaði þar sem þetta er rosalega mikill skaði,“ en parið telur að það eigi að ákæra mennina fyrir morðtilraun og segja að lögreglan hafi gefið til kynna að það verði gert.

Skuldar ekki neinum pening

Konan viðurkenndi þau ættu bæði sína sögu í neyslu en þeim kafla væri löngu lokið og tengist ekki neinu slíku.

„Fyrsta sem lögreglan spyr er hvort að hann gæti eitthvað þekkt barnsmóður þessa einstaklings, sem hann gerir ekki, og spurði svo hvort hann skuldi pening. Það eina sem hann veit er að það er hvorugt af þessu. Af því að það var þannig að á einhverjum tímapunkti þá var það hann sem skuldaði kærastanum mínum, það var það eina. Annars var ekkert þannig í myndinni. Þannig að lögreglan er að reyna átta sig á því hvað það var sem fékk hann til að halda að hann hafi efni á að gera þetta. Það er enginn sem á þetta skilið, ekki einu sinni þótt hann skuldaði honum 30 milljónir en það er ekki einu sinni inn í myndinni.“

„Þetta er eins lágt og þú leggst,“ sagði konan að lokum um þessa hræðilegu árás.

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -