Eins og Mannlíf greindi frá í síðustu viku standa nú yfir framkvæmdir í Dalslaug, nýjustu sundlaug Reykjavíkurborgar, en til stendur að byggja varðturn til að veita sundlaugarvörðum betri yfirsýn yfir sundlaugina. Núverandi aðstaða laugarvarða þykir óheppileg þar sem rennibrautir laugarinnar sjást ekki úr núverandi aðstöðu en ætlað er að kostnaður við byggingu á nýjum varðturni verði 65 milljónir króna. Mannlíf sendi fyrirspurn á Reykjavíkurborg til að spyrjast fyrir um framkvæmdir og viðgerðir í sundlaugum borgarinnar á þessu ári. Í svari borgarinnar kemur fram að um 150 milljónir muni fara í endurgerðir og meiri háttar viðhaldsverkefni á þessu ári og næstu fimm mánuðum muni 30 milljónir fara í Árbæjarlaug, 30 milljónir í Sundhöll Reykjavíkur, 25 milljónir í Dalslaug, 5 milljónir í Vesturbæjarlaug, 5 milljónir í Breiðholtslaug og 2 milljónir í Klébergslaug. Þá kemur einnig fram í svari borgarinnar að allt árið um kring séu tilfallandi og minniháttar viðhaldsframkvæmdir í gangi í öllum sundlaugum borgarinnar og er áætlaður kostnaður við slíkt 300 milljónir króna þetta árið. Því muni heildarkostnaður við viðhald og framkvæmdir í sundlaugunum vera í kringum 450 milljónir króna í ár.