Lögreglan fór offorsi að mati mótmælenda í morgun þegar piparúða var beitt gegn þeim fyrir utan Skuggasund 3 þar sem ríkisstjórnarfundur var fyrirhugaður. Myndband birtist á Facebook í dag sem virðist renna stoðir undir fullyrðingar mótmælendanna.
Þó nokkur fjöldi friðsælla mótmælenda varð fyrir bæði stimpingum og piparúðaspreyji lögreglunnar eftir að þeir neituðu að færa sig af götunni. Mótmælin voru haldin til að pressa á að ríkisstjórnin beitti sér gegn þjóðamorði Ísraela á Palestínumönnum. Þrír mótmælendur voru fluttir á bráðamóttöku til aðhlynningar. Samkvæmt heimildum Mannlífs eru mótmælendurnir í áfalli, bæði líkamlegu og andlegu.
Aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Arnar Rúnar Marteinsson sagði í samtali við RÚV að alltaf sé reynt að halda valdbeitingu í lágmarki þegar tekist er á við mótmælendur. Áður en piparúðunum var beitt, reyndi lögreglan að bregðast við aðgerðum þeirra án valdbeitingar, að sögn Arnars.
Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að ávallt sé reynt að halda valdbeitingu í lágmarki þegar tekist er á við mótmælendur. Reynt hafi verið að bregðast við aðgerðum mótmælenda án valdbeitingar áður en lögregla greip til þess að beita piparúða.
Samtökin No Borders Iceland birtu myndband í dag á Facebook þar sem bent er á að lögreglan beiti piparúða gegn mótmælendum eftir að ráðherrabifreið er búin að aka framhjá þeim. „Engin hætta stafaði af neinum og engin voru handtekin“.
Hér má sjá textann sem fylgdi myndskeiðinu og fyrir neðan hann má sjá myndskeiðið:
„Takið eftir að lögregla grípur til ofbeldis og beitir piparúða gegn mótmælendum eftir að bíll ráðherra hefur ekið framhjá. Engin hætta stafaði af neinum og engin voru handtekin. Þessar barsmíðar voru alfarið geðþóttaákvarðanir lögreglumanna og aðför að grundvallarrétti almennings til að mótmæla.“