Föstudagur 28. júní, 2024
8.1 C
Reykjavik

Mótmæltu brottvísun Yasam litla: „Til helvítis með fólk sem mætir í vinnuna og brýtur á börnum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bergþóra Snæbjörnsdóttir flutti sannkallaða eldræðu á mótmælum fyrir framan Alþingishúsið í dag. Þar var samankominn fjöldi fólks til að mótmæla brottflutningi hins 11 ára gamla Yazam Timimi úr landi en hann er greindur með alvarlegan hrörnunarsjúkdóm.

Fjöldi fólks mætti til að mótmæla óréttlætinu. Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

Talsverður fjöldi fólks mætti á Austurvöll í dag til að mótmæla því að hinn 11 ára gamli Yazam Timimi verði kastað úr landi ásamt foreldrum sínum, Mohsen og Feryal Aburajab Tamimi, sem komu til landsins frá Vesturbakkanum í Palestínu fyrir tæpu ári síðan. Búið er að neita þeim um hæli á landinu en nauðsynlegum gögn um heilsu drengsins var ekki framvísað við málsmeðferðina. Yazam er greindur með hinn mjög svo ágenga hrörnunarsjúkdóm, Duchenne en drengurinn þarf á stöðugri læknisaðstoð að halda, svo hann geti lifað bærilegu lífi en lífslíkur drengja með þennan skæða sjúkdóm, sé hann ekki meðhöndlaður, er ekki nema 15 til 18 ár.

Margir eru afar óánægðir með barnamálaráðherrann.
Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

„Vanhæf ríkisstjórn, ómennsk ríkisstjórn,“ var meðal þess sem kallað var á mótmælunum en það var Bergþóra Snæbjörnsdóttir sem flutti kröftuga ræðu, sem hún byggði á pistli eftir eiginmann hennar, Braga Pál Sigurðarson sem birtist í Stundinni árið 2019 en sú grein fjallaði um brottrekstur kasóléttrar konu úr landi eftir að henni var neitað um hæli. Bergþóra uppfærði pistilinn lítillega, enda hefur ástandið í málum flóttafólks hér á landi að hennar sögn ekki breyst mikið.

Hér má lesa ræðuna í heild sinni:

- Auglýsing -

Allir bara að vinna vinnuna sína.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er bara að vinna vinnuna sína. Látið hana í friði. Hún fær skipanir um miðja nótt og þarf að framfylgja þeim. Ekki þeim að kenna. Einhver þarf að gera þetta. Einhver þarf að ýta á takkann sem kveikir á blikkljósunum lögreglubíls sem stendur fyrir utan Barnaspítala Hringsins. Einhver þarf að leyfa bláu ljósunum að loga. 

Einhver þarf að hunsa tilmæli heilbrigðisstarfsfólks um að barnið geti dáið sé það sett í flugvél og sent úr landi. Einhver þarf að vinna hjá Kærunefnd Útlendingamála við að hundsa öll gögn sem eru lögð fyrir nefndina og skrifa úrskurð þess efnis að heilsufarsástand barnsins sé í raun ekkert einstakt. Jafnvel bara hversdagslegt. Að minnsta kosti ekki nægilega einstakt til að beri að taka neitt tillit til þess. 

- Auglýsing -

Nei, það er ekkert einstakt við palestínskt barn í hjólastól með aggressífan og banvænan hrörnunarsjúkdóm. Barn með sjúkdóm sem um 0,1 % mannkyns fær. Við þurfum ekkert að taka tillit til þess. Getur þú dáið við að vera fluttur úr landi? Þar fór í verra. En ekki okkar ábyrgð. Við erum bara að vinna hérna. Við erum bara að vinna við að taka ákvarðanir um að taka sénsinn á þínu lífi fyrir þína hönd. 

Lögreglan er bara að vinna vinnuna sína. Þetta er bara verkefni. Enn eitt verkefnið sem þarf að vinna. Einhver þarf að koma þessari meinlausu fjölskyldu úr landi. Einhver þarf að beita hælisleitendur og flóttafólk ofbeldi. Einhver þarf að beita þá sem mótmæla ofbeldi. Við verðum að þagga niður í ykkur og bera ykkur út, það er bara vinnan okkar.

Starfsfólk Útlendingastofnunar er bara að vinna vinnuna sína. Látið þau í friði. Þau starfa samkvæmt löggjöf íslenska ríkissins og henni ber að framfylgja. Engin óvild. Engin innbyggð mannvonska. Svona eru bara lögin. Ísköld og svalandi. 

Einhver þarf að taka ákvörðun um að vísa fjölskyldum úr landi um miðja nótt. Svona vanþakklátar ákvarðanir taka sig ekki sjálfar. Það þarf að skrifa undir fullt af skjölum, stimpla þau, rétta fólki sem fer með þau á staði þar sem börn í hjólastólum bíða örlaga sinna. 

Þar sem bláu ljósin blikka þarf að framfylgja því sem stendur á skjölunum. Þannig bara virkar þetta. Engum að kenna. Bara starfsfólk Útlendingastofnunar að vinna vinnuna sína.

Foreldrarnir hafa verið að vinna sína vinnu og alla yfirvinnutíma heims við að halda barninu sínu á lífi. Berjast og berjast fyrir hverri einustu sekúndu með barninu sínu. Tíminn er dýrmætur. Þegar barnið hætti að geta gengið ákváðu foreldrarnir að verða fætur þess. Flytja það frá heimalandi sínu. Bera það þvert yfir hnöttinn til öruggasta lands í heimi fyrir börn. Internetið sagði að það væri Íslands. Þau hafa unnið vinnuna sína og alla yfirvinnutíma heims. Þau eru örmagna. En áfram gakk. Út með ykkur. Þið hljótið að redda ykkur. 

Barnið heitir Yazan Tamimi. Lífslíkur drengja sem eru með Duchennes eins og hann eru ekki nema um 15-18 ára án þjónustu. En munið – ekkert sérstakt við það! Nú er barnið nýkomið með þá þjónustu sem hann þarf. Heilsa hans er verri en drengja almennt á sama aldri. 

Yazan er að verða tólf ára. Hvað eru mörg góð ár eftir? Enginn veit það. En íslensk stjórnvöld ætla að rifa hann upp með rótum og senda hann til Spánar þar sem flóttamannakerfið er löngu sprungið. Af því að „líklega“ fái hann viðeigandi þjónustu þar. En hversu langt rof mun verða á þeirri þjónustu?

Hver einasti dagur skiptir máli. Sjúkdómurinn herjar á hjarta, lungu, allt stoðkerfið. Það MUN STYTTA LÍF HANS að brottvísa honum.

Ellefu ára barn á ekki að þurfa að vera með þá einu vinnu að einfaldlega lifa. Líkaminn örmagna, hugurinn örmagna. Stöðugir verkir. Getan alltaf minni og minni. Brothætt ástand. Getur dáið við HNJASK. Góða ferð elsku barn. Við ætlum að senda þig í flugvél. Hver tekur ábyrgð á því? Ekki við sem erum bara að vinna hérna, svo mikið er ljóst. 

En kerfinu er nákvæmlega sama um allt þetta. Það er vinna sem þarf að vinna og ef enginn vinnur hana þá vinnur enginn neitt. Barnið er búið að eignast vini, það fær að ganga í skóla, það er öruggt í öruggasta landi í heimi fyrir börn. Nei, sorrý, við erum bara að vinna vinnuna okkar. 

Barnið vill ekki borða. Barnið vill ekki taka lyfin sín. Barnið vill ekki lifa. En svona er þetta. Lögreglan og Útlendingastofnun eru bara að vinna vinnuna sína. Alþingismennirnir. Ráðherrarnir í rándýru jakkafötunum og dröktunum. Allir bara að vinna vinnuna sína. Svekkjandi.

Þetta er engum að kenna. Stundum þarf bara að flytja lífshættulega veik börn í hjólastólum og örmagna foreldra þess úr landi, gegn vilja þeirra. Einhver verður að gera þetta. Einhver verður að mæta í vinnuna og þvinga þetta fólk úr landi. Það verður að vinna þessa vinnu. Það verður að fylgja þessum lögum. Þetta fólk er bara að vinna vinnuna sína. Allir bara rosa duglegir að vinna vinnuna sína á meðan við höldum áfram að rústa lífi saklaus fólks en akkúrat núna ætla ég að mæta í vinnuna mína og hún felur í sér að ég segi fokk þetta. Til fjandans með kerfi sem þykist þjóna en er bara að  troða á valdalausum innan þess og utan. Til helvítis með fólk sem mætir í vinnuna og brýtur á börnum án þess að andmæla yfirboðurum sínum. 

Fólk sem tekur svona ákvarðanir þarf að geta svarað fyrir þær. Þið fáið ekki lengur að fela ykkur í myrkrinu. Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður KNÚ, þú tókst þessa ákvörðun upp á þitt einsdæmi af því að kerfið okkar leyfir fólki eins og þér að fara með svona völd yfir lífi barns. Þú tókst lífsvilja Yazans frá honum, það eina sem hann mátti aldrei missa. Þorsteinn Gunnarsson, formaður KNÚ, þú hefur breytt kærunefndinni úr því að vera síðasta vígi fólks á flótta fyrir réttlæti í það að vera einfaldlega að framfylgja rasískri stefnu. Hörður Ólafsson læknir stoðdeildar lögreglunnar sem tekur púls í nokkrar sekúndur á barni með Duchenne til að geta vottað að megi alveg skófla því úr landi. Viðurkennir samt að vita ekkert um Duchenne. 

Skömmin er ykkar! 

Sorrý ef ég er dónaleg  en ég bara verð að vinna vinnuna mína og segja ykkur öllum að fara rakleiðis í rassgat, samviskulausa jakkafatapakk sem stendur í stafni en þykist samt ekkert geta gert. Stígvélasleikjurnar mega líka éta skít, þær sem framfylgja raddlausum skipunum ykkar eins og síðasti hlekkurinn í einhverjum ömurlegum hvísluleik. Lögin sem þið felið ykkur á bak við munu ekki veita neitt skjól þegar þið þurfið að lokum að svara fyrir gjörðir ykkar.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -