Stöðug rigning var í nótt á Austurlandi að sögn Veðurstofu Íslands.
Hús voru rýmd í gær á Seyðisfirði vegna möguleika um skriðuföll en engar tilkynningar hafa borist til Veðurstofu hingað til. „Það heldur áfram að rigna, linnulaust,“ sagði Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur Veðurstofunnar, í samtali við mbl.is. „Þetta tekur smá tíma fyrir vatnið að metta jarðveginn. Sérfræðingarnir okkar eru að fylgjast mjög vel með í dag. Ef það gerist eitthvað, þá er það í dag eða í kvöld.“
Þá hefur Þorsteinn ekki miklar áhyggjur af veðrinu á Siglufirði en þak fauk af húsi í bænum í nótt.
„Þegar það er viss átt á Siglufirði þá nær strengurinn einhvern veginn að magnast inn fjörðinn. Það er ekkert óveður þannig, við erum ekki með neinar viðvaranir á Norðurlandi,“ sagði Þorsteinn um málið.