Lovísa og fjölskylda hennar lentu í þeirri hörmulegu reynslu að fjölskyldukötturinn, Múslí, týndist. Margir kattareigendur þekkja það á eigin reynslu að týna félaga sínum, oftast skila þeir sér þó aftur, jafnvel eftir langan tíma. Múslí er búin að vera týnd síðan 9.mars.
Í gærkvöldi fékk maður Lovísu símtal úr leyninúmeri þar sem aðili segist vera með köttinn þeirra, vitanlega varð fjölskyldunni létt við þessar fréttir, þangað til að maðurinn sagðist hafa drepið köttinn. Maðurinn talaði ensku, hann hélt áfram og spurði hvort þau ættu fleiri ketti og segir Lovísa manninn hafa gefið í skyn að hann vildi drepa þann kött líka.
Fjölskyldan tilkynnti þessa óhugnalegu reynslu til lögreglunnar sem lítið getur gert í málinu en ráðlagði þeim að tala við símfyrirtækið, sem þau gera.
„Kisan okkar er búin að vera týnd síðan 9 mars og enn höldum við í vonina að hún rati aftur heim. Í gærkvöldi fáum við símtal frá leyninúmeri sem við höldum fyrst að séu gleðifréttir því einhver á hinni línunni segir I have your cat! Maðurinn minn endurtekur Do you have my cat, Múslí?? Krakkarnir spennast allir upp og ég finn létti yfir því að þessi martröð sé loksins á enda! Þá segir hann Yes I killed your cat! Its dead! Og svo spyr hann hvort við eigum annan kött, eins og hann væri að gefa í skyn að hann vildi drepa hann líka. Hvað er að fólki?? Eru einhverjir fleiri búnir að fá svona símtöl? Mig langar allavega að trúa að þetta hafi verið símaat,“ sagði í færslu Lovísu, sem hún gaf Mannlífi góðfúslegt leyfi til að birta.
Múslí er tæplega þriggja ára, grá læða, fjölskyldan býr í Mosfellsbæ en segir Lovísa hana geta verið hvar sem er. Múslí er ólarlaus en örmerkt, gæf og svarar nafninu sínu. Fólk er beðið um að hafa samband við dýraspítala eða aðra aðila sem aðgang hafa að örmerkjalesara ef sést til Múslí. Hægt er að sjá lista yfir félagssamtök og fyrirtæki með örmerkjalesara hér.
Góður vani er að kíkja inn í skúra og undir palla þar sem kettir eiga það til að festast.