Fimmtudagur 27. júní, 2024
9.1 C
Reykjavik

Mygla fannst á fleiri stöðum í Borgum á Akureyri: „Þetta er stórt mál, það er engin spurning“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mygla hefur greinst á fleiri svæðum í Borgum á Akureyri, eftir að leka varð vart í byggingunni. Starfsfólk Háskólans á Akureyri, sem starfar á skrifstofum í húsinu, hefur þurft ða færa sig yfir í annað húsnæði á vegum skólans.

Í vor var sagt frá því að Fiskistofa hafi neyðst til að loka starfstöð sinni í Borgum á Akureyri vegna myglu sem þar fannst. Nú er ljóst að lekinn sem uppgötvaðist er umfangsmeiri og hefur mygla fundist víðar í húsnæðinu.

Ekki óalgengt

Framkvæmdir standa nú yfir á Borgum á Akureyri sem miða að viðgerðum vegna leka sem uppgötvaðist frá útvegg á 2.hæð og hafði skilað sér undir gólfdúk, að því er fram kemur í skriflegu svari frá Reitum, eiganda Borga. Þar segir einnig:

„Svona tjón eru ekki óalgeng og þegar þetta uppgötvaðist var strax gripið til verklagsreglna okkar og farið í hreinsun á ónýtu byggingarefni og sérhæfðir úttektaraðilar kallaðir til sem skoða húsið í heild og ráðleggja um næstu skref.“

Þá kemur einnig fram í svarinu að úttekt Eflu verfræðistofu á húsnæðinu hafi leitt ástæðu lekans í ljós:

- Auglýsing -

„Efla verkfræðistofa vann úttekt á húsinu sem leiddi í ljós að lekinn stafaði af frágangi í kringum glugga á vissum stöðum. Samkvæmt úttektinni er stærsti hluti hússins í góðu lagi en framkvæmda er þörf á ákveðnum svæðum. Þar er nú unnið að úrbótum og vænst er til þess að þeim ljúki á þessu ári, að þeim loknum mun Efla gera aðra úttekt á húsinu þar sem viðgerðir verða skoðaðar og loftgæði í húsinu metin. Þá mun verkfræðistofan jafnframt hafa eftirlit með loftgæðum í húsinu í um sex mánuði eftir að framkvæmdum lýkur til að tryggja enn frekar heilnæmt umhverfi.“

Jón Kolbeinn Guðjónsson, framkvæmdastjóri framkvæmda hjá Reitum, sagði í skriflegu svari til Mannlífs að fyrirtækið hafi gripið til staðlaðra viðbragða sem miði að því að vernda heilsu fólksins sem notar húsnæðið:

„Leki eins og sá sem varð í Borgum er ekki óalgengur og veldur stundum myglu ef hann uppgötvast ekki strax. Reitir grípa til staðlaðra viðbragða í svona aðstæðum sem miða fyrst og fremst að því að vernda heilsu þeirra sem nota hús okkar og kostleggja umfang skemmda. Verktakar sem vinna á okkar vegum hafa mikla reynslu af því að fjarlægja ónýt byggingarefni og við væntum þess að hægt sé að ganga hratt í framkvæmdir.“

- Auglýsing -

Þurftu að færa sig á milli bygginga

Mannlíf ræddi einnig við rektor Háskólans á Akureyri, Eyjólf Guðmundsson, sem staðfesti að mygla hefði fundist á skrifstofum skólans í Borgum og að hluti starfsfólks skólans þar, hafi flutt sig yfir í aðra byggingu háskólans.

„Það sem sagt kom upp mygla hjá Fiskistofu fyrr í vor og í beinu framhaldi af því voru gerðar mælingar á fleiri stöðum í húsinu. Og þá fundust mygla á fleiri stöðum og það var farið í mjög ítarlega greiningu, sem er enn í gangi í raun og veru. Og þau rými sem mygla hefur fundist í, og þá tala ég aðeins fyrir hönd Háskólans, þá tæmdum við þau rými og fundum aðra vinnuaðstöðu fyrir fólk í hinum byggingunum okkar.“

Þá sagði Eyjólfur að fólki hafi einnig verið boðið að færa sig, jafnvel þó engin mygla hefði fundist á þeirra skrifstofum. Sjálfur er hann enn á sinni skrifstofu á fjórðu hæð byggingarinnar, enda engin mygla þar. „Þannig að byggingin er í sjálfu sér ekki lokuð en þetta er stórt mál, það er engin spurning,“ sagði Eyjólfur en hann segist hafa fengið bráðabirgðaskýrslu frá Reitum en búist við því að fá nákvæmari skýrslu um það hvernig bregðast eigi við myglunni.

Þurfa lausn fyrir haustið

Aðspurður hvort starfsfólk skólans, sem nýtt hefur sér skrifstofur í byggingunni, hafi fundið fyrir óþægindum vegna myglunnar svaraði Eyjólfur: „Það hafa alveg verið einkenni hjá starfsfólki í gegnum tíðina, já. Við höfum alveg orðið vör við það. En það hefur ekki veirð tengt við þetta fram að þessu enda var það ekki sýnilegt en kom í ljós þegar farið var að kíkja undir dúka og svona, þegar fara átti í aðrar framkvæmdir.“

Að lokum sagði Eyjólfur að undanfarin ár hafi ekki verið hlustað á beiðni um nýtt húsnæði fyrir Háskólann á Akureyr.

„Við lítum á þetta sem verkefni fyrir haustið en ástandið er erfitt fyrir okkur í þeim skilningi að við höfum ekkert borð fyrir báru í húsnæðismálum og við þurfum lausn fyrir haustið. Og svo höfum við þurft nýtt húsnæði í mjög langan tíma og nú kemur í ljós hversu bagalegt það er að ekki hafi verið farið í slíkar framkvæmdir eins og við höfum beðið um á síðustu árum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -