Hundurinn Hanz er tekinn til starfa við að leita uppi myglu í húsum.
Hundurinn Hanz er þýskur fjárhundur í eigu Jóhönnu Þorbjargar Magnúsdóttur. Hanz stóðst nýverið próf og hlaut vottun frá þýsku mygluleitarsamtökunum er nú tekinn til starfa við að leita uppi myglu í húsum.
Verkefnið er samstarfsverkefni verkfræðistofunnar Mannvits hf. og Allir hundar ehf.
Notkun á hundum við mygluleit er aðferð sem hefur verið notuð áratugum saman víða erlendis og er mikilvægur þáttur í greiningu skemmdra bygginga er fram kemur á vef Mannvits.
„Þá er það orðið opinbert. Við Hanzi stóðumst úttekt þýsku mygluleitarsamtakanna og erum því fyrsta mygluleitarteymi landsins. Þetta er búið að vera gríðarleg vinna síðasta àrið en mikið sem það er gaman að uppskera. Hanzi gerði sér lítið fyrir og fór villulaust í gegnum próf! Mér líður stundum meira eins og forritara heldur en hundaþjálfara þegar ég vinn með hann. Hann er með gríðargott minni og er alltaf jákvæður og sannur í öllum sínum verkefnum – heppin ég að hafa eignast svona frábæran vinnufélaga,“ skrifar Jóhanna á Facebook.