Í myndskeiði sem birtist á Nútímanum í gærkvöldi sjást starfsmenn tveggja ferðaþjónustufyrirtækja í áflogum og hnakkrífast en myndskeiðið er tekið á Breiðamerkurjökli, við gangnamunnann að íshellinum sem hrundi í fyrradag.
Samkvæmt Nútímanum hafa átök á milli starfsmanna ferðaþjónustufyrirtækja á Breiðamerkurjökli og í Vatnajökulsþjóðgarði verið nærri dagleg síðustu vikur og mánuði en rifist er um „einkaleyfi“ á notkun íshellisins en það var fyrirtækið Niflheimar ehf eða Glacier Mice sem bjó hellinn til.
Fram kemur í umfjöllun Nútímans að íshellirinn sem hrundi á sunnudaginn með þeim afleiðingum að bandarískur karlmaður lét lífið og unnusta hans slasaðist, hafi verið mikið bitbein hjá stærstu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins eins og sjá má í myndskeiði sem miðillinn birti en þar sjást starfsmenn tveggja fyrirtækja slást við hellismunnann. Þar sem hellirinn er innan Vatnajökulsþjóðgarðs er hann í eigu almennings en svo virðist sem starfsmenn fyrirtækjanna sem sjást í myndskeiðinu, slái til skiptis eign sinni á hellinn.
Í myndskeiðinu sést starfsmaður ónafngreins fyrirtækis, en hann kallar sig í myndskeiðinu Friðrik the Caveman, banna hópi ferðafólks sem var þar á vegum Ice Pic Journeys, að fara inn í hellinn. Enskumælandi leiðsögumaður Ice Pic Journey svaraði þá, í íslenskri þýðingu: „Þetta er hópur sem er með Ice Pic Journey, þannig að þeir eru okkar viðskiptavinir og hafa því leyfi til að fara þarna inn.“ Þessu svarar sjálfskipaði dyravörður íshellisins: „Hvar keyptu þau miða?“ „Það kemur þér ekkert við! Við erum hér löglega.“ svarar þá leiðsögumaður Ice Pic Journeys. Friðrik fer síðan að segja ferðafólkinu að það sé tryggingarlaust, ef eitthvað færi úrskeiðis en því mótmælir leiðsögumaður Ice Pic Journeys. „Hver ert þú? Ertu lögreglumaður?“ spyr ferðalangurinn en maðurinn svarar glottandi: „Nei, ég er Friðrik, the Caveman“ og bætti við að fyrirtæki hans hafi verið með ferðir í íshellinn um langt skeið. Aðspurður hvort hann sé eigandi hellisins svarar hann: „Já, næstum því“. Því mótmælir leiðsögumaður Ice Pic Journeys harðlega og bendir á að þetta sé innan þjóðgarðsins og því í eigu almennings. Téður Friðrik segir svo við viðskiptavini Ice Pic Journeys að því fyrirtæki sé sama um þau. „Þetta er mjög gráðugt fyrirtæki sem hugsar bara um peninga“. Stuttu síðar brutust út slagsmál milli mannanna.
Það var fyrirtækið Ice Pic Journeys sem var með hóp ferðamanna í íshellinum á sunnudaginn þegar hann hrundi með ofangreindum afleiðingum. Mannlíf hefur reynt að hafa uppi á eiganda fyrirtækisins án árangurs.
Hér má sjá umrædd myndskeið: