Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Myrtu Bretar frægustu söngkonu Sýrlendinga? – Nýr hlaðvarpsþáttur Jóns Sigurðar birtist í kvöld

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sumarið 1944 lætur söngkonan Asmahan lífið er bifreið, sem hún var farþegi í, var ekið útí Nílarfljót í egypsku borginni Mansúra. Vinkona hennar sem einnig sat í bílnum lést sömuleiðis en ökumaðurinn lifði ósköpin af og komst þar að auki undan. Asmahan, sem er frægasta söngkona sem Sýrlendingar hafa alið, var á hátindi frægðar sinnar og tilbeðin hvarvetna sem arabíska var töluð og jafnvel víðar. Það var því ekki að undra að fjölmiðlar, sem og almeningur, veltu því fyrir sér hverjir vildu koma henni fyrir kattarnef en minnstar líkur bentu til þess að um slys hefði verið að ræða. Sú kenning sem hæðst hefur flogið er sú að breska leyniþjónustan hafi verið þar að verki en Asmahan var njósnari í síðari heimstyrjöldinni og átti í samstarfi við Bandamenn sem fór útum þúfur. Bendir ýmislegt til að hún hafi, meira að segja, reynt að snúa sér til andtæðinga þeirra, Nasista, þegar henni þótti ljóst að Bandamenn ætluðu að svíkja sig. 

Þannig bar til að söngkonan tilheyrði trúarhópi sem kallaður er Drús og hafði hún, í krafti frægðar sinnar og ættartengsla, mikil áhrif í þeim hópi. Þegar Nasistar gerðu víðreist um Miðausturlönd greip Charles de Gaulle hershöfðini Frakka á það ráð að fá Asmahan til að sannfæra landa sína um að veita ekki viðnám er Bandamenn legðu þar undir sig lönd. Á móti lofaði hann því að þegar búið yrði að stöðva framrás Þjóðverja og búa vel í haginn þar í botni Miðjarðarhafs myndu þeir veita bæði Líbanon og Sýrlandi sjálfstæði. En eitthvað stóð á efndum og voru landar hennar farnir að hafa orð á því að hún hefði látið plata sig. Asmahan fór þá áleiðis til Tyrklands, þar sem Þjóðverjar voru fyrir á fleti, en var handtekin áður en hún náði á fund þeirra. Ekki er ljóst hvað henni stóð til en sumir hyggja að hún hafi haft í huga að leggjast á árar með Nasistum í hefndarskyni en það er þó ekki víst. Hinsvegar liggur ljóst fyrir að samstafið fór á versta veg. Asmahan komst hinsvegar aftur til Kæró í Egyptalandi þar sem hún tók upp þráðinn þar sem frá var horfið á söngferlinum. En það stóð ekki lengi því, einsog fyrr segir, lést hún áður en Heimstyrjöldinni lauk. 

Því hefur líka verið fleygt að menn handgengnir stórstjörnunni, söngkonunni egypsku Um Kúlþúm, hafi myrt hana til að losa þá egypsku við hatramma samkeppni. Um Kúlþúm er líklegast frægasti arabi sem uppi hefur verið og er stundum sagt að ágæti hennar sé það eina sem allir Arabar geti verið sammála um. Ekkert hefur verið sannað í þessum efnum fremur en öðrum.

Enn aðrir láta að því liggja að fjölskyldan heima á Sýrlandi hafi haft horn í síðu hennar en hún lifði gjörsamlega á skjön við þær hefðir, siði og reglur sem þar ríktu. Þótti sumum þar heima að hún hefði flekkað orðspor fjölskyldunnar. Til dæmis reykti hún einsog strompur og drakk sitt viskí, átti ástmenn og vafði sumum þeirra um fingur sér. Svo hafði frændi hennar, Hassan að nafni, sannfært hana eitt sinn um að láta söngferilin lönd og leið og giftast sér, koma til Sýrlands og sinna börnum og búi. Lét hún þetta eftir honum en sambúðinni lauk eftir mikið drama þar sem Asmahan reyndi að svifta sig lífi. 

Hvað sem öllum kenningum líður, má víst vera að Asmahan var einstök kona, langt á undan sinni samtíð og að lögin sem hún gerði fræg munu líklegast hljóma svo lengi sem arabíska er sungin.

Um þetta áhugaverða mál er rætt í nýjasta hlaðvarpsþættinum Rúntað með Rucio sem hægt er að hlusta á hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -