Fimmtudagur 2. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Nærmynd Alda D. Möller: „Bara engill af himnum ofan“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Alma Dagbjört Möller landlæknir er ein þeirra sem staðið hefur í eldlínunni undanfarnar vikur vegna útbreiðslu COVID-19 kórónuveirunnar hér á landi. Þríeykið, Alma, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafa nær daglega setið upplýsingafundi, þar sem þau hafa svarað spurningum blaðamanna af yfirvegun og öryggi.

 

„Ég get fullyrt að það eru ekki margir sem hafa lesið meira um þessa blessuðu kórónuveiru undanfarið en Alma,“ segir Dagrún Hálfdánardóttir, lögfræðingur hjá Embætti landlæknis og samstarfskona Ölmu. „Alma er skuggalega klár, vel að sér og eldsnögg að hugsa. Alma er vinnusöm og einbeitt, fáránlega skipulögð og reiðubúin til að leggja mikið á sig. Hennar helstu kostir sem samstarfsmanns eru hvað hún er gríðarlega morgunhress.“

Langyngst í stórum systkinahópi

Alma er fædd 24. júní 1961 á Siglufirði, langyngst í sex systkina hópi, fimm systur og einn bróðir. Móðir hennar er Helena Sigtryggsdóttir húsmóðir, fædd 1923, og faðir hennar er Jóhann Georg Möller, verkstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins og bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins á Siglufirði, fæddur 1918, látinn 1997.

„Alma er langyngst af okkur systkinunum, þannig að við hin höfum stundum sagt í gamansömum tóni að hún sé einkabarn,“ segir Kristján L. Möller, bróðir Ölmu, og viðurkennir aðspurður að hann, þá yngstur af fimm systkinum hafi langað í bróður, þegar von var á einu systkini enn. „Ég hef stundum haldið því fram að foreldrar okkar hafi ætlað að gera annan súperstrák, en það hafi ekki tekist og bara komið súperstelpa í staðinn.“

Kristján L. Möller, eldri bróðir Ölmu

Metnaðargjörn á menntavegi

- Auglýsing -

„Það kom manni ekkert á óvart hvernig hún fetaði menntaveginn, hún hafði einstaklega gaman af að læra og fara lengra. Hún er metnaðargjörn og lagði mikinn metnað í námið alla tíð,“ segir Kristján.

Alma lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1981, og læknaprófi frá Háskóla Íslands 1988. Hún hélt síðan til Svíþjóðar í sérfræðinám í svæfingum og gjörgæslu við Háskólasjúkrahúsið í Lundi og útskrifaðist þaðan 1995 og 1996 lauk hún prófi Evrópsku svæfingalæknasamtakanna. Fjórða desember 1999 varði hún  doktorsritgerð sína í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Háskólann á Lundi, á sama tíma og hún starfaði sem sérfræðingur við Háskólasjúkrahúsið í Lundi, en þar starfaði hún árin 1992-2005.

Alma hefur einnig lokið meistaraprófi í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu og hlotið sérfræðiviðurkenningu í heilbrigðisstjórnun. Árið 2002 tók Alma við starfi yfirlæknis á gjörgæsludeildum Landspítala í Fossvogi og við Hringbraut. Árin 2014-2018 var hún framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítala.

- Auglýsing -
Forsíða DV
Skjáskot timarit.is

Fyrst kvenna sem þyrlulæknir

Alma er fyrsta konan sem starfaði sem þyrlulæknir Landhelgisgæslunnar, en hún störf í maí 1990 og fór til Skotlands í sérstakar æfingabúðir. Í forsíðuviðtali við DV í september 1991 sagðist hún hafa verið heppin því hún hefði lært mikið í skólanum.

Í viðtalinu rifjaði Alma upp orð eins skipverja þegar hún kom sígandi niður úr þyrlunni: „Nú, það er bara engill af himnum ofan.“

„Hún er áræðin, samanber þegar hún gerðist þyrlulæknir, ég og mamma vorum ekkert hrifin af því á þeim tíma, en Alma leysti það eins og annað með prýði,“ segir Kristján.

Viðtal við Ölmu og Helgu á DV árið 1991
Skjáskot timarit.is

Húmoristi og hundavinur

Alma er gift Torfa Fjalari Jónassyni hjartalækni og eiga þau tvö börn, Helgu Kristínu, doktorsnema í jarðfræði, og Jónas Má lögfræðing.

„Alma er mjög vel gift. Hjónin eru snilldarkokkar, þau veiða saman í ám, Alma veiðir á flugu og hefur gaman af. Torfi er líka skotveiðimaður og veiðir rjúpu, hreindýr og gæsir og þau elda þetta saman og bjóða í mat, og þetta eru alltaf stórveislur, þau hafa gaman af að dedúa við þetta og bjóða gestum heim,“ segir Kristján og bætir við að yngsta systir hans sé mikill húmoristi.

„Alma er mikill hundavinur, og þau eiga hund sem heitir Móberg, kallaður Mói, og mig grunar nú að jarðfræðingurinn dóttir þeirra hafi gefið honum það nafn,“ segir Kristján. „Alma er mikil útivistarmanneskja og dugleg við fjallgöngur og allt slíkt, hjónin hafa ferðast mikið saman og þá farið á staði sem ekki margir fara á, sem dæmi til Galapagoseyja í göngu og ég hafði gaman af því að heyra sögur af þeim standa þar í biðröð til að sækja um og skoða einhver náttúruundur.

„Ég, eiginkonan, og systur mínar vorum að grínast með það eftir að Smartland birti frétt um klæðaburð Ölmu, þá varð mér að orði „hún ætti að sjá skósafnið,“ því skósafn Ölmu er eins og meðalgóð skóbúð. Og það á við þær allar systur mínar og eiginkonu,“ segir Kristján og rifjar upp Spánarferð, þar sem öll fjölskyldan var saman, ásamt foreldrum þeirra systkina. „Við vorum öll á göngu, og faðir okkar var svona þannig að hann vildi drífa í hlutunum og halda áfram. Nema þær hurfu allar og ég benti á skóbúð sem þær fóru í. Þá sagði pabbi: „Fundu þær nú eina helvítis skóbúðina í viðbót!“

Mynd / Hallur Karlsson

Fyrst kvenna til að verða landlæknir

Alma var skipuð landlæknir frá 1. apríl 2018, fyrst kvenna til að gegna embættinu í 258 ára sögu þess, en sex sóttu um stöðuna.

„Þó að það sé sjaldan lognmolla í kringum Ölmu í vinnunni og dagarnir hennar oft langir og mjög strembnir þá er stutt í glens og grín þegar það á við. Hún er skemmtilegur vinnufélagi sem tekur sjálfa sig ekki of hátíðlega. Svo er eitt sem hún má eiga og er mjög mikill kostur, en hún hefur hugrekki til að skipta um skoðun. Alma er algjörlega laus við tilgerð og þú veist alltaf hvar þú hefur hana,“ segir Dagrún.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -