Hjónin sem urðu fyrir skotárásinni á Blönduósi síðastliðinn sunnudagsmorgunn eru þau Eva Hrund Pétursdóttir og Kári Kárason. Eva Hrund lést í árásinni og Kári liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi eftir að hann var skotinn í kviðinn.
Brynjar Þór Guðmundsson varð Evu Hrund að bana og stórslasaði Kára í skotaárásinni. Hann fannst sjálfur látinn á vettvangi og hefur lögreglan gefið út að ekki hafi verið um sjálfsvíg að ræða.
Eva Hrund var iðjuþjálfi hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands og starfaði sem sjálfboðaliði við hjúkrunar- og dvalardeildina á Blönduósi. Hún lætur eftir sig fjögur börn og tvö barnabörn. Kári er framkvæmdastjóri Vilko og er hann jafnframt í sóknarnefnd Blönduóskirkju og í slökkviliði bæjarins. Hann var tilnefndur sem maður ársins eftir hetjulegt björgunarafrek árið 2012 er hann og sonur hans björguðu manni úr bifreið sem oltið hafði ofan í Laxá í ásum.
Börn Evu Hrunar og Kára haf óskað eftir friði til að takast á við áfallið. Það gerðu þau í tilkynningu í gærmorgun. „Það er erfiðara en orð fá lýst að ganga í gegnum það sem við erum að upplifa núna. Það er enn þyngra þegar fjölmiðlar flytja rangar og villandi fréttir af atvikum og ganga nærri friðhelgi einkalífs okkar með myndbirtingum og síendurteknum hringingum í okkur, nánustu vini og ættingja,“ skrifuðu Sandra, Hilmar, Pétur og Karen.