Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Náfrændi Ölmu Möller er lögmaður Skúla Tómasar: „Landlæknir ákvað að víkja sæti samstundis“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Staðgengill Ölmu D. Möller er sá sem gaf Skúla Tómasi Gunnlaugssyni endurnýjað starfsleyfi á dögunum því Alma steig til hliðar í málinu þegar læknirinn réði náfrænda hennar sem lögmann.

Dr. Alma D. Möller vék úr sæti landlæknis og fól heilbrigðisráðherra að setja annan í hennar stað, í tengslum við mál Skúla Tómasar Gunnlaugssonar læknis, gagnvart embættinu. Það gerði hún þegar bróðursonur hennar, Almar Þór Möller var ráðinn af Skúla sem lögmaður en Skúli hefur nú réttarstöðu grunaðs manns í andláti sex sjúklinga á HSS, þar sem hann vann sem yfirlæknir á árunum 2018 til 2020. Því var það ekki Alma Möller sem veitti Skúla endurnýjun á lækningaleyfi, heldur staðgengill hennar. Þetta kemur fram í skriflegu svari embættis lanndlæknis.

Mannlíf sendi nokkrar spurningar á embætti landlæknis eftir að í ljós kom að Skúli Tómas hafi enn og aftur fengið endurnýjun á lækningaleyfi sínu en hann starfar nú á Landspítalanum, þrátt fyrir að vera grunaður um að vera valdur að dauða sex sjúklinga sinna á árunum 2018-2020.

„Því er fyrst til að svara að Alma D. Möller svarar ekki fyrir þetta tiltekna mál. Alma D. Möller landlæknir ákvað að víkja sæti samstundis og lögfræðingur henni tengdur fjölskylduböndum hóf að sinna málum læknisins gagnvart embætti landlæknis. Alma sendi þá heilbrigðisráðherra beiðni um að annar aðili yrði settur landlæknir í umræddu máli líkt og stjórnsýslulög nr. 37/1993 gera ráð fyrir. Sá læknir hefur farið með málið síðan.“ Þetta segir í skriflegu svari embættisins til Mannlífs.

Hér eru eftirfarandi spurningar Mannlífs og svör embættisins við þeim:

Hver eru rökin fyrir því að þú veittir Skúla Tómasi Gunnlaugssyni starfsleyfi, en hann er eins og þú veist, með stöðu grunaðs vegna andláts sex sjúklinga sem hann sinnti hjá HSS.

- Auglýsing -

Embætti landlæknis: „Embætti landlæknis getur ekki rætt málefni einstakra heilbrigðisstarfsmanna.“

Nú skrifaðir þú afar svarta skýrslu um meðhöndlun Skúla Tómasar á Dönu Jóhannsdóttur, þar sem segir meðal annars: „Embættið telur að ekki hafi aðeins verið um að ræða misbrest á almennri fagmennsku við veitingu heilbrigðisþjónustu til DJ, heldur hafi í ákveðnum tilvikum einnig verið um að ræða alvarlega vanrækslu og mistök STG læknis, sem bar meginábyrgð á læknisfræðilegri meðferð DJ.“. Hvers vegna hefurðu veitt Skúla Tómasi ítrekað starfsleyfi, þrátt fyrir álit þitt á störfum hans, sem varð til þess að Dana lét lífið?

Svarið: „Embætti landlæknis getur ekki tjáð sig um einstök mál. Almennt gildir að fjallað er um endurveitingu starfsleyfis í 17. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 en þar segir: „Landlæknir getur veitt heilbrigðisstarfsmanni, sem sviptur hefur verið starfsleyfi eða hefur afsalað sér því, starfsleyfi að nýju enda hafi viðkomandi sýnt fram á að hann uppfylli skilyrði laga fyrir endurveitingu starfsleyfis og að þær ástæður sem leiddu til sviptingar eða afsals eigi ekki lengur við. Landlæknir getur ákveðið að endurveitt starfsleyfi skuli vera tímabundið eða takmarkað, sbr. 15. gr.“ Þannig getur viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður fengið leyfi t.d. ef bata vegna sjúkdóms sem leiddi til sviptingar er náð eða þegar faglegri endurhæfingu, -menntun og -þjálfun er lokið ef ástæða sviptingar var fagleg vanhæfni. Við endurveitingu leyfis er leyfi ætíð takmarkað í fyrstu, t.d. við ákveðna stofnun og starfsmaðurinn sætir eftirliti fyrstu mánuðina eða árin eftir því sem tilefni er til.“

- Auglýsing -

Hefurðu orðið fyrir pressu frá læknum um að veita Skúla starfsleyfi?

„Nei. Í öllum málum starfar landlæknir eftir lögum og reglum og engu öðru. Að auki er vísað í að landlæknir ákvað að víkja sæti í umræddu máli.“

Hver er skoðun þín á þeirri staðreynd, að Skúli hafi í neyðartilfellum, sinnt sjúklingum á Landspítalanum af og til, í ljósi þess að maðurinn er grunaður um að vera valdur að dauða sex sjúklinga?

Svarið: „Eins og áður hefur komið fram ákvað landlæknir að víkja sæti í umræddu máli. Heilbrigðisráðuneyti skipaði settan landlækni í málinu. Þegar fyrirspurn þín barst var hún áframsend á settan landlækni.“

Hversu oft hefur þú neitað lækni um starfsleyfi síðustu 3 árin? Hvað þarf til?

Svarið: „Sjá svar ofan. Til að endurveiting starfsleyfis komi til greina þarf margvísleg skilyrði, t.d. vottorð um meðferð sjúkdóms og fullnægjandi bata, vottorð um að lokið sé fullnægjandi endurmenntun og -þjálfun og fleira eftir atvikum. Umsækjendum um endurveitingu starfsleyfis er kunnugt um þetta og yfirleitt er ekki sótt um endurveitingu fyrr en skilyrði eru uppfyllt. Á sl. þremur árum eru innan við fimm dæmi þess að lækni hafi verið synjað um endurveitingu starfsleyfis.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -