Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Nakin og blaut í Reynisfjöru – Saga af furðulegasta verkfalli Íslandssögunnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég átti í eilitlum vandræðum með að útskýra fyrir þáverandi kærustu minni, sem ég hafði verið með í eitt ár og hún nokkuð afbrýðisöm enn, að ég væri að fara að leika í Vaseline-auglýsingu þar sem ég yrði umkringdur kviknöktu fólki og sjálfur hálfnakinn. En það var nú samt það sem ég þurfti að gera og þótt henni hafi ekkert litist á blikuna, vissi hún að við þurftum peninginn, enda fátækir námsmenn á þessum árum.

Auglýsingin sem ég er að tala um var erlend auglýsing sem tekin var upp fyrir Vaseline-fyrirtækið árið 2007. Þetta var fyrsta aukahlutverkið mitt, en síðan þá hef ég verið í alls konar kvikmyndum, auglýsingum og kynningarmyndböndum. En þarna var ég ansi blautur á bak við eyrun, þar sem ég stóð fyrir framan Alexíu sem sá um að ráða leikara í auglýsinguna. Á umsóknareyðublaðinu þurfti ég meðal annars að velja hvort ég vildi vera nakinn í auglýsingunni eða hálfnakinn. Fyrir alnektina átti ég að fá 24.000 krónur en fyrir hálfnektina 14.000 krónur. Ekki mikið myndu einhverjir segja en þarna var ég fátækur námsmaður. Nú er ég bara fátækur, en það er önnur saga.

Áður en lengra er haldið vil ég fullyrða að framkvæmd auglýsingarinnar hafi verið sú sögulegasta hér á landi.

Alls vantaði leikstjórann, sem er þekktur í bransanum og hafði leikstýrt myndböndum með drottningum á borð við Madonnu, 150 aukaleikara, nakta eða hálfnakta. Hafði okkur verið sagt að mæta við Fífuna í Kópavogi og að tökurnar tækju bróðurpartinn af deginum. Ekki var okkur sagt hvar yrði tekið upp. Mig minnir að ég hafi mætt um hádegisbil við Fífuna þar sem nokkrar rútur biðu leikaranna. Fljótlega fylltust rúturnar, en við lögðum ekki af stað fyrr en klukkan 14.00. Þegar búið var að keyra okkur í klukkutíma var okkur loksins sagt hvert förinni væri heitið. Vík í Mýrdal var tökustaðurinn, nánar tekið Reynisfjara. Þarna var klukkan orðin 15.00 og enn um tveggja tíma akstur eftir og því nokkuð ljóst að maður yrði ekki aðeins bróðurpartinn af deginum við tökur, heldur einnig föður-, móður- og systurpartinn.

Þegar á áfangastað var komið var þegar hafist við handa. Við vorum með aðstöðu í risastóru tjaldi í Reynisfjöru og fækkuðum fötum og gerðum okkur tilbúin í tökur. Ég komst svo að því að sú skinnpjatla sem ég átti að hafa fyrir klofinu á mér dugði varla til að hylja nokkurn skapaðan hlut og hefði ég allt eins getað verið nakinn. Til að halda á okkur hita var búið að sérútbúa úlpur úr hvítum sængum. Nokkur okkar kölluðum okkur gangandi sykurpúða. Okkur var svo smalað á réttan stað á svarta sandinum, í köldu myrkrinu. Björgunarsveitin var svo tilbúin að fjarlægja úlpurnar þegar tökur hófust. Þau sem eitthvað vit hafa á svona upptökum vita að þær eru ansi tímafrekar enda þarf að taka upp sömu atriðin aftur og aftur og frá mismunandi sjónarhornum. Eftir hvert „Cut“ frá leikstjóranum hljóp björgunarsveitarfólkið upp að okkur og klæddi okkur í úlpurnar. Eftir það fórum við aftur í tjaldið. Rigning sem var með hléum setti svo heldur betur strik í reikninginn því ekki var hægt að taka upp í bleytunni. Þurftum við því hvað eftir annað að hætta tökum þegar himnarnir opnuðust yfir okkur. Þegar komið var rétt yfir miðnætti dró til tíðinda.

Einhverjir af þessum 150 manna hópi aukaleikara, voru meðlimir mótmælahópsins Saving Iceland, í leit að aukapening líkt og við öll. Þau sáu það sem allir aðrir sáu en voru þau einu sem þorðu að segja eitthvað við því. Þarna höfðu 150 manns verið plataðir alla leið til Víkur í Mýrdal, til að leika í erlendri auglýsingu risafyrirtækis, hálfnakin eða kvik-, í kulda og bleytu, í það langan tíma að ekki sá fyrir endann á því. Fyrir þetta áttum við að fá sáralítinn pening. Og hvað gerðu Saving Iceland-meðlimirnir þá? Nú, það sem þeir gerðu best, mótmæltu. Flestir höfðu fært sig inn í rúturnar þegar þarna var komið sögu, en Saving Iceland-fólkið gekk á milli aukaleikara og sannfærði þá um að nú skyldi gerð uppreisn. Og það tókst þeim. Hundrað og fimmtíu aukaleikarar lögðu niður störf sín um miðja nótt og neituðu að byrja aftur fyrr en launin yrðu hækkuð. Ekki veit ég til þess að þetta hafi gerst áður í sögu Íslands.

- Auglýsing -

Eftir tveggja klukkutíma samningaviðræður við aukaleikarana var loksins samþykkt að borga okkur 10.000 krónum meira en samið hafði verið um. Og áfram héldu tökurnar með reglulegum hléum vegna skúra. Þegar ég kom heim klukkan níu morguninn eftir, tók á móti mér pirruð kærasta, enda hafði ég verið innan um nakið fólk alla nóttina.

Ég veit að innan tökubransans á Íslandi er framkvæmd þessarar auglýsingar mjög fræg og ég veit líka að af þessu hafa íslensk fyrirtæki, sem halda utan um svona verkefni, lært heilmikið á þeim mistökum sem gerð voru við þessar tökur og eru nú aðstæður og framkoma gagnvart aukaleikurum mun betri en var haustið 2007, þó alltaf megi betur gera.

Hér má sjá auglýsinguna:

- Auglýsing -

Þennan pistil og fleira má lesa í glænýju tölublaði Mannlífs en blaðið má lesa hér:

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -