Knattspyrnuliðið Fiorentina þarf ekki að kaupa Albert Guðmundsson frá Genoa verði hann dæmdur fyrir nauðgun en sem stendur er hann í láni hjá félaginu. Verði hann ekki fundinn sekur þarf liðið hins vegar að borga 20 milljarða evra fyrir hann.
„Það var mjög erfitt að ganga frá félagaskiptum Alberts. Við byrjuðum í janúar og gengum loksins frá öllu mánuði fyrir lok félagaskiptagluggans,“ sagði Daniele Pradè, yfirmaður íþróttamála hjá ítalska knattspyrnufélaginu Fiorentina, í dag.
„Það er ein ástæða þess að þetta tók svona langan tíma. Félagið er 100 prósent tryggt og það er lítil áhætta hjá okkur. Þetta er lán og annað hvort erum við skyldug til að kaupa hann eða ekki, það fer eftir því hvernig málið endar,“ en mbl.is greindi fyrst frá málinu hérlendis.
Ávallt neitað sök
Réttarhöldin yfir Alberti hófust í fyrradag í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hann er ákærður fyrir nauðgun með því að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við konu án hennar samþykkis.
Í fyrra var Albert kærður fyrir kynferðisbrot gegn konu en lögreglan rannsakaði málið og sendi það til héraðssaksóknara. Sá felldi málið niður í vor þar sem hann taldi að það væri ekki líklegt til sakfellingar. Kærði kona þá ákvörðun til ríkissaksóknara sem í maí sneri henni við.
Líkt og venjan er í kynferðisbrotamálum er þinghald í málinu lokað en þann 3. júlí var Albert viðstaddur þingfestingu málsins í gegnum fjarfundarbúnað. Þegar Albert var kærður mátti hann ekki leika með landsliðinu en fékk síðan að spila nokkra leiki með liðinu þegar frávísunin var í áfrýjunarferli. Frá því að niðurfellingunni var snúið við hefur Albert aftur verið á bannlista KSÍ.
Albert hefur frá upphafi neitað sök í málinu.
Albert er án efa besti knattspyrnumaður Íslands um þessar mundir og skoraði hann 16 mörk í 37 leikjum fyrir Genoa á síðasta tímabili en hann hefur leikið 37 landsleiki fyrir Íslands og skorað í þeim tíu mörk.