Mögulegt er að E.coli sýkingin sem smitaði börn á leikskólanum Mánagarði hafi borist með nautahakki en málið er til skoðunar samkvæmt Guðrúnu Aspelund sóttvarnalæknir.
Í samtali við mbl.is segir Guðrún að algengt sé að þegar slík sýking kemur upp sé nautahakk sökudólgurinn en hakk var í boði á leikskólanum í seinustu viku. 18 börn eru þessa stundina undir eftirliti Landspítalans og liggja sjö börn inn á spítala og eru tvö alvarlega veik.
Líta málið alvarlegum augum
Samkvæmt sóttvarnalækni er sérstakt sóttvarnateymi að rannsaka smitin og hvernig þau bárust í börnin og fleiri sýni hafi verið tekin í gær og í dag. Viðtöl verða tekin við fjölskyldur barnanna til að fá betri mynd af matarsögu þeirra.
„Málið er litið mjög alvarlegum augum. Hugur okkar er fyrst og fremst hjá börnum Mánagarðs og foreldrum þeirra,“ segir í yfirlýsingu sem Soffía Emelía Bragadóttir, leikskólastjóri Mánagarðs, sendi frá sér.
Skólinn muni gera sitt allra besta til að veita foreldrum upplýsingar um málið og vinna með rannsakendum.