„Með því að þiggja boðið er ég að leggja blessun yfir hjónaband samkynhneigðra,“ sagði færeyski stjórnmálamaðurinn Jenis av Rana sem neitaði að sitja við sama borð og Jóhanna Sigurðardóttir og maki hennar, Jónína Leósdóttir, vegna kynhneigðar þeirra, þar sem hann vildi meina að hjónabönd samkynhneigðra stríddu gegn vilja guðs. Nú eru 12 ár eru frá opinberri heimsókn þáverandi forsætisráðherra Íslands, Jóhönnu Sigurðardóttur og eiginkonu hennar Jónínu Leósdóttur, til Færeyja.
27. júní sama ár höfðu Jóhanna Sigurðardóttir og Jónína Leósdóttir gengið að eiga hvor aðra í hjónabandi, sama dag og ný hjúskaparlög, sem veittu öllum rétt allra óháð kynhneigð, tóku gildi á Íslandi.
Þingmaðurinn Jenis av Rana var á þessum árum formaður Miðflokksins sem hafði það á stefnuskrá sinni að Færeyjum skyldi stjórnað eftir lögum Biblíunnar.
Í frétt Morgunblaðsins 8. september 2010 var fjallað um heimsókn forsætisráðherra í Færeyjum, þar sagði: „Írafár varð í Færeyjum vegna ummæla þingmanna sem sögðu heimsókn Jóhönnu og eiginkonu hennar, Jónínu Leósdóttur, vera „ögrun“. Einn þeirra, Jenis af Rana, berst ákaft gegn réttindum samkynhneigðra. Jenis, sem er leiðtogi kristilega Miðflokksins, segir hjónabönd samkynhneigðra brjóta í bága við vilja Guðs. […] Haft var einnig eftir Gerhard Lognberg, þingmanni í Javnaðarflokkurin, systurflokki Samfylkingarinnar, á vef Nordlysid að hann liti á heimsókn Jóhönnu sem ögrun.“
Fordæmdur af mörgum
Málið vakti víða athygli og fordæmt af mörgum var þar á meðal lögmaður Færeyinga Kaj Leo Johannesen sem sagði: „Skammastu þín, Jenis“ í samtali við útvarpsstöðina Kringvarpið.
Í fyrrgreindi frétt Morgunblaðsins kom einnig fram að: „Högni Hoydal, formaður Þjóðveldisflokksins í Færeyjum, gagnrýndi einnig Jenis harðlega. Magni Laksáfoss, þingmaður Sambandsflokksins, fordæmdi skoðanir Jenis. „Ég tel að þetta hafi ekkert með Jóhönnu að gera. Ég held að hann sé að hlúa að sínum eigin atkvæðum,“ sagði Laksáfoss.“
Í kjölfarið var hann sjálfur sniðgenginn
Í DV 15. september 2010 er þess getið að Jenis hafi í kjölfar framgöngu sinnar og orða verið sniðgenginn af dönskum þingmanni.
„Danski þingmaðurinn Mogens Jensen leggur til að ráðherrar og fulltrúar Norðurlandaráðs sitji ekki til borðs með færeyska þingmanninum og flokksleiðtoganum Jenis av Rana á matmálstímum á fundum ráðsins. Í yfirlýsingu frá Jensen sem birt er á vef jafnaðarmanna í Norðurlandaráði fordæmir hann framkomu færeyska þingmannsins gagnvart Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í heimsókn hennar til Færeyja á dögunum, en Jenis av Rana, neitaði þá að sitja til borðs með henni vegna þess að hún er samkynhneigð.“
Árni Johnsen vildi sýna umburðarlyndi
Opinberun fordóma Jenis skapaði háværa umræðu um fordóma gegn hinsegin samfélagsins. Árni Johnsen, þáverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins, hafði verið í viðtali hjá Pressunni og kom því fram að hann vildi að færeyska þingmanninum yrði sýnt umburðarlyndi. Þar sagði hann: „Ég vil ekki blanda mér í þessi ummæli hans. Jenis er sérstæður persónuleiki og mikill grundvallarmaður og það ber að virða. Færeyingar eru harðskeyttir í meiningum sínum og það ber að virða það þótt við vildum hafa það öðruvísi.“
Í leiðara Jóns Trausta Reynissonar ritstjóra DV 10. september 2010 svarar hann ummælum Árna og segir að umburðarlyndi gagnvart kúgun sé afstaða með kúguninni en ekki umburðarlyndinu. „Íslendingar ættu að standa þétt að baki Jóhönnu og Jónínu og mótmæla einelti færeysku þingmannanna allir sem einn. Við þurfum að sýna svo ekki verði um villst að við tökum virka afstöðu gegn fordómum en ekki óvirka afstöðu með þeim. Við sitjum ekki hjá og horfum upp á forsætisráðherra landsins lagðan í opinbert einelti fyrir kynhneigð sína.“
Framfarir í réttindabaráttunni
Veruleg framfarir hafa átt sér stað í færeysku samfélagi en 2017 eða sjö árum síðar voru hjónabönd samkynhneigðra samþykkt á færeyska lögþinginu. Sama það ár var Jóhönnu Sigurðardóttur og Jónínu Leósdóttur boðið að opna gleðigöngu Færeyinga.
Í frétt hjá RÚV 20. júlí 2017 kemur fram: „Síðan þá hafa miklar framfarir náðst og meðal annars hefur hjónaband samkynhneigðra verið lögfest, eins og lesa má á vefnum LGBT.fo, þar sem segir að Færeyjar voru síðasta Norðurlandaþjóðin til að leyfa hjónaband samkynhneigðra og 23. landið til að gera það á heimsvísu.“
Í frétt frá 20. Júlí 2017 á vísi.is segir: „Jóhanna Sigurðardóttir, sem var fyrsti opinberlega samkynhneigði þjóðarleiðtogi heims, mun opna áttundu hinsegin gönguna í Færeyjum þann 27. júlí næstkomandi. Jóhönnu er meðal annars boðið að taka þátt í ár til að varpa ljósi á þær framfarir sem hafa átt sér stað í réttindabaráttu hinsegin fólks í Færeyjum á síðustu árum. […] Áætlað er að þúsundir muni ganga til stuðnings hinsegin fólki þennan dag.“