„Gleymi því aldrei þegar þú komst í tíma með mér að læra um Shakespeare“
Nemendur við Háskóla Íslands minnast kattarins Rósalindar með hlýhug en hún hefur verið daglegur gestur skólans í áraraðir.
Rósalind gladdi marga nemendur með nærveru sinni: „Í fyrsta prófinu mínu í háskóla þá birtist hún allt í einu inni í prófastofunni og var andlegur stuðningur með því að strjúka sér við fæturnar mínar og fá klapp í dágóða stund! Mun alltaf helga henni ágætan árangur minn á þessu prófi“
„Ég var einu sinni að labba úr Hámu á Háskólatorgi þegar ég gekk fram hjá borði þar sem sátu fjórar miðaldra konur. Á miðju borðinu lá Rósalind, alsæl. Ég er nokkuð viss um að þannig sé kattahimnaríki.“
Nemendur minnast nú Rósalindar í Facebook hópnum Spottaði kött en þar naut hún mikilla vinsæla.