„Að fréttamaður spyrji 12 ára stúlku, sem hefur sætt grimmilegu ofbeldi í heilt ár, hvort hún geti „fyrirgefið“ ofbeldisfólkinu, það er óhæfa,“ segir rithöfundurinn Illugi Jökulsson á Facebook. Þar á hann við frétt RÚV í gærkvöldi þar sem rætt var við 12 ára gamalt fórnarlamb eineltis og ofbeldis í Hafnarfirði.
Illugi er alls ekki sáttur: „Tala nú ekki um strax daginn eftir að ofbeldið og eineltið enduðu með skelfingu. Hin sífellda spurning og oft krafa um að þolendur ofbeldis „fyrirgefi“, hún er í sjálfu sér óhæfa.“
Sjá einnig: Dóttir Sædísar reyndi að svipta sig lífi eftir einelti í Hafnarfirði:„Hún er enn þá uppi á spítala“
Tólf ára dóttir Sædísar Hrannar Samúelsdóttur dvelur nú á sjúkrahúsi eftir að hafa reynt að svipta sig lífi. Hún hefur orðið fyrir langvarandi einelti í Hafnarfirði og ofbeldi af hálfu jafnaldra sinna og hefur stúlkan unga ekki mætt í skólann lengi.
Illugi og fleiri netverjar furða sig á því að RÚV hafi rætt við hið unga fórnarlamb hins grimma ofbeldis í Hafnarfirðinum. Guðmundur Jörundsson fatahönnuður er meðal þeirra sem er æfur á Twitter vegna fréttaflutnings RÚV:
„Það er gjörsamlega sturlað að 12 ára barn sé sett í þá stöðu að tekið sé við það sjónvarpsviðtal um eigin sjálfsvígstilraun. Hvernig getur það gerst að enginn stöðvi þetta? Sagði enginn bara heyrðu er þetta ekki of langt gengið?,“ spyr Guðmundur.
Ég geri alvarlega athugasemd við það að birta myndir af og viðtöl við barn í sjálfsvígshættu vegna eineltis. Að birta skjáskot af andstyggilegum skilaboðum sem beint er að barninu í beinni á Facebook er einnig vafasamt svo vægt sé til orða tekið.
— Theódóra (@Skoffin) October 19, 2022
Hvernig dettur fólki í hug að vera að láta stelpu sem er nýbúin að reyna að svipta sig lífi, lesa ógeðsskilaboðin til sín upp í sjónvarpi?
— Ingibjörg Stefáns (@ingibjorgstef) October 19, 2022