Neytendasamtökin vara neytendur við sjö fyrirtækjum í tilkynningu á vefsíðu samtakanna í dag. Ástæðan er að umrædd fyrirtæki hafa valið að hlíta ekki úrskurðum Kærunefndar vöru- og þjónustukaupa þegar nefndin hefur úrskurðað neytendum í vil í ágreiningsmálum.
Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa tekur á kvörtunum neytenda í garð seljenda. Hún er skipuð fulltrúum atvinnulífsins, neytenda og ráðuneytis.
„Á undanförnum tveimur árum hefur nefndin úrskurðað í vel á annað hundrað málum, þar af neytendum í vil að hluta eða að fullu í 65 málum,“ segir í tilkynningunni.
Neytendur ekki lagt á sig dómstólaleiðina
Þessi sjö fyrirtæki sem Neytendasamtökin vara nú neytendur landsins við eiga það sameiginlegt að hafa ekki unað úrskurðum nefndarinnar í kærumálum neytenda. Í flestum tilvikum er um of lága upphæð að ræða til þess að neytendur fari með málin fyrir dómstóla, „þrátt fyrir að þau ynnust að líkindum.“ Í tilkynningunni segir að upphæðirnar séu allt frá nokkrum tugum þúsunda upp í fáein hundruð þúsunda.
Fyrirtækin sem um ræðir eru:
Ferðaskrifstofa Íslands ehf.
Ormsson ehf.
CC Bílaleiga ehf.
Matfasteigna ehf.
Geri Allt slf.
Camper Iceland ehf.
GC ehf.
Hugsanlega tilefni til að koma á smákrafnarétti
Í tilkynningunni er því velt upp hvort ekki sé tilefni til þess að koma á smákrafnarétti (e. Small Claims Court) á Íslandi, „sem fyrirtæki yrðu að hlíta, eða auðvelda fólki að sækja rétt sinn á annan hátt.“
Nöfn fyrirtækja sem ekki hafa unað úrskurði nefndarinnar eru birt á lista Neytendasamtakanna í eitt ár en eftir það hverfa þau af honum.
„Samtökin hvetja forsvarsmenn fyrirtækjanna að fara tafarlaust að úrskurðum kærunefndarinnar. Þangað til verða þau í skammarkróknum,“ segir í tilkynningunni.