Konan sem kærði knattspyrnumennina Aron Einar Gunnarsson og Eggert Gunnþór Jónsson fyrir nauðgun hefur kært niðurfellingu héraðssaksóknara á máli hennar til Ríkissaksóknara. Mbl greinir frá þessu en skrifstofa Ríkissaksóknara hefur staðfest málið við fréttastofu RÚV.
Eins og áður hefur verið greint frá kærði konan þá Aron Einar og Eggert Gunnþór fyrir nauðgun sem á að hafa átt sér stað í Danmörku árið 2010. Héraðssaksóknari felldi málið niður fyrr í mánuðinum.
Aron Einar er fyrrum fyrirliði íslenska landsliðs karla í knattspyrnu en hefur ekki verið valinn í liðið síðan málið kom upp. Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, hafði fengið heimild frá KSÍ til að velja hann í landsliðshópinn á ný eftir að málið var fellt niður. Þjálfarinn opinberaði landsliðshóp sinn fyrir komandi landsleiki á fundi í höfuðstöðvum KSÍ eftir hádegið í dag og athygli vakti að Aron Einar var ekki í hópi leikmannanna.
Þegar ljóst varð að niðurfelling málsins hefði verið kærð til Ríkissaksóknara var Arnari Þór enn á ný ekki heimilt að velja Aron Einar í hópinn. Er það vegna nýrrar samþykktar stjórnar KSÍ. Í henni segir að þegar mál einstaklinga séu til meðferðar hjá rannsóknar- eða ákæruvaldi vegna meintra alvarlegra brota, skuli viðkomandi stíga til hliðar meðan á málinu stendur. Nú þegar niðurfelling máls þeirra Arons og Eggerts hefur verið kærð til Ríkissaksóknara telst mál þeirra enn til meðferðar hjá ákæruvaldinu.
Samþykkt þessarar nýju viðbragðsáætlunar KSÍ nær yfir báða knattspyrnumennina, en þrátt fyrir að hafa áður spilað með A-landsliðshópnum hefur Eggert Gunnþór ekki gert það í um þrjú ár.