Vonast er eftir að hægt verði að auglýsa samkeppni um nýja þjóðarhöll í næsta mánuði.
„Við skiluðum af okkur frumathugun í desember 2022 og fengum þá heimild frá borg og ríki að halda áfram undirbúningi. Síðan þá höfum við unnið að forvalsgögnum, samkeppnislýsingu, tækni- og rýmislýsingu, svo við erum í raun alveg klár í að auglýsa samkeppni í október en á þessari stundu bíðum við eftir formlegri niðurstöðu ríkisins á framhaldið og heimildinni til þess að auglýsa samkeppnina,” sagði Gunnar Einarsson, formaður framkvæmdanefndar um þjóðarhöll, í samtali við RÚV fyrr í dag og sagði að nýtt fjárlagafrumvarp hefði ekki nein áhrif framkvæmdina.
„Við fengum á sínum tíma 100 milljónir frá ríki og 100 milljónir frá borg til að hefja þennan undirbúning. Við erum bara að nota þá fjármuni. Við erum búin að teikna upp tímalínuna og þetta hefur auðvitað dregist, eins og allir vita. En ég geri ráð fyrir því að þjóðarhöllin verði komin fyrir lok árs 2026 eða í byrjun árs 2027.”