Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-1 C
Reykjavik

Nýja Ísland: Nokkrir stórir leikendur í íslensku viðskiptalífi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hér innanlands er hins vegar að finna ansi kröftugar fjárfestingablokkir einkafjárfesta sem hafa verið að láta á sér kræla í fjárfestingum í atvinnulífinu. Og hafa getu til að gera enn meira. Hér eru nokkrir stórir leikendur.

Lítill sem enginn áhugi virðist vera erlendis frá á mikilli fjárfestingu hérlendis, eins og sást ljóslega þegar bindiskylda var lækkuð niður í núll fyrr á þessu ári, aðgerð sem var til þess fallin að reyna að örva erlenda fjárfestingu. Síðan það var gert hefur erlend fjárfesting verið minni en hún var á sama tíma í fyrra. Þetta er hið nýja Ísland.

Eftir stendur markaður sem þarf þá virkilega á nýju blóði að halda en virðist í erfiðleikum með að trekkja að nýja fjárfestingu. Hér innanlands er hins vegar að finna ansi kröftugar fjárfestingablokkir einkafjárfesta sem hafa verið að láta á sér kræla í fjárfestingum í atvinnulífinu. Og hafa getu til að gera enn meira.

Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir.

Töluvert hefur farið fyrir hópnum sem ráðið hefur í tryggingafélaginu VÍS á undanförnum árum. Þar er um að ræða hjónin Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmund Örn Þórðarson, sem eiga 7,25 prósent hlut í VÍS, 6,93 prósent í Kviku banka og hlut í Kortaþjónustunni í gegnum félag sitt K2B ehf. Innan VÍS hafa þau myndað blokk með nokkrum öðrum einkafjárfestum, meðal annars Óskabeinshópnum, sem á 2,48 prósent í VÍS, og er í eigu Gests Breiðfjörð Gestssonar, Sigurðar Gísla Björnssonar, Andra Gunnarssonar og Fannars Ólafssonar.

Brimgarðar, félag í eigu systkinanna Eggerts Árna, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslabarna, er nokkuð umfangsmikið í skráðum eignum, sérstaklega í fasteignafélögum. Það á í Eik (6,9 prósent), Reitum (2,1 prósent), í Reginn (2,73 prósent) og Heimavöllum (3,01 prósent). Brimgarðar hafa líka átt hlut í Icelandair. Eigið fé Brimgarða nam 2.959 milljónum króna í lok síðasta árs en á sama tíma átti félagið eignir upp á 10.998 milljónir króna.

Hreggviður Jónsson.

Félagið Stormtré er að stærstu leyti í eigu Hreggviðs Jónssonar. Það er aðaleigandi Veritas Capital sem á meðal annars Vistor, sem flytur inn til Íslands lyf og aðrar tengdar vörur. Auk þess á Stormtré 2,5 prósent hlut í smásölufélaginu Festi.
Eigið fé Stormtrés var 6,8 milljarðar króna í lok síðasta árs.

Snæból er fjárfestingafélag í jafnri eigu hjónanna Finns Reyrs Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur. Það á stóran hlut í Sjóvá (8,64 prósent), í Heimavöllum (7,47 prósent) auk þess sem það á þrjú prósent hlut í Eyri Invest, stærsta eiganda Marel. Alls átti Snæból um tíu milljarða króna í eigin fé um síðustu áramót.

- Auglýsing -
Guðrún Lárusdóttir.

Stálskip var stofnað sem útvegsfyrirtæki árið 1970 en seldi frystitogarann sinn og allan kvóta árið 2014. Í kjölfarið var því breytt í fjárfestingafélag, en það er í eigu hjónanna Guðrúnar Lárusdóttur og Ágústs Sigurðssonar og þriggja barna þeirra. Guðrún er framkvæmdastjóri, en hún er 86 ára gömul. Á meðal fjárfestinga Stálskipa má nefna 8,59 prósent hlut í Heimavöllum en alls voru eignir félagsins metnar á 11,9 milljarða króna í lok síðasta árs. Þar af voru verðbréf sem metin voru á 3,1 milljarð króna en uppistaðan, 6,3 milljarðar króna, voru geymdar á bankabók.

Þá verður að telja til félagið 365 ehf., sem á nú endurkomu í heim hlutabréfafjárfestinga, fyrst með kaupum í Högum og svo í Skeljungi eftir að það losaði sig út úr fjölmiðlarekstri eftir 16 ár í slíkum. Eigandi þess er Ingibjörg Pálmadóttir og eiginmaður hennar, Jón Ásgeir Jóhannesson, settist nýverið í stjórn Skeljungs þar sem 365 á 4,32 prósent hlut.

365 seldi fjölmiðla sína til tveggja aðila. Annars vegar til fjarskiptafélagsins Sýnar, þar sem Heiðar Guðjónsson, fyrrverandi stjórnarformaður og núverandi forstjóri, er stærsti einstaklingshluthafinn í gegnum Ursus (9,2 prósent). Heiðar á líka stóran hlut í HS Veitum. Sýn keypti ljósvakamiðla 365 og vefinn Vísir.is.

- Auglýsing -
Helgi Magnússon.

Hinn aðilinn sem keypti fjölmiðla af 365 var Helgi Magnússon, sem á nú Fréttablaðið og tengda miðla að öllu leyti. Hann hefur verið mjög umsvifamikill í íslensku athafnalífi á undanförnum árum í gegnum félögin Hofgarða, Varðberg og Eignarhaldsfélagið Hörpu, sem hann á með öðrum. Hann hefur til að mynda átt hluti í Bláa lóninu, þar sem hann er stjórnarformaður, og hefur lengi átt vænan hlut í Marel, en hann hefur verið að selja sig niður þar undanfarið. Helgi hefur fjárfest í Iceland Seafood, Stoðum og Kviku banka á þessu ári.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -