Nikulás Sveinsson var staddur í flugturni Keflavíkurflugvallar er Dakota flugvélin Glitfaxi fórst 31. janúar árið 1951. Hann man orðrétt hvað fór fram milli flugumferðastjórnar og flugstjóra vélarinnar.
Mannlíf fjallaði um í baksýnisspegli sínum á föstudaginn, eitt dularfyllsta og sorglegasta flugslys Íslandsssögunnar, Glitfaxaslysið 1951. Flugvélin var að koma frá Vestmannaeyjum með 17 farþegar og þrjá áhafnarmeðlimi innanborðs en veðrið var slæmt. Þegar Glitfaxi reyndi í annarri tilraun að lenda á Reykjavíkurflugvelli hvarf hann af ratsjá og hefur ekki fundist síðan. Brot úr vélinni fannst þó á sínum tíma en talið er að hún hafi farist undan Álftanesi.
Sjá einnig: Glitfaxi – flugvélin sem hvarf: „Hún reyndi hvað hún gat að telja afa hughvarf“
Í kjölfar baksýnisspegilsins hafði sonur Nikulásar Sveinssonar samband við Mannlíf og kom á samskiptum á milli miðilsins og föður hans. Upplýsingarnar sem Nikulás kemur hér með hafa aldrei heyrst áður opinberlega, svo vitað sé.
„Ég er búinn að lúra á þessu alla tíð frá því að þetta skeði, þetta hefur legið á mér eins og mara“ sagði Nikulás Sveinsson, 94 ára í samtali við Mannlíf en hann vann við raföryggismál á Keflavíkurflugvelli. „Ég hef ekki viljað hafa hátt um þetta vegna aðstandenda og ég var bundinn þagnareið á þessum vinnustað mínum,“ sagði Nikulás en hann var staddur í flugturninum í Keflavík en hann var að endurnýja raflagnir í turninum þennan örlagaríka dag árið 1951.
„Ég man orðaskipti aðflugsstjórnar, flugumferðastjóra og flugmanns vélarinnar alveg orðrétt. Þetta situr svo í mér, þetta er búið að pirra mig alla mína tíð,“ sagði Nikulás og bætti við að hann hefði lengi spáð í að segja frá þessu en ekki viljað það því þá myndu kannski einhverjir vilja „pumpa upp úr“ honum frekari upplýsingar sem hann hefði ekki.
Orðaskiptin
„Það var þannig að það var vél að koma frá Bandaríkjunum, Dakota-vél en hún kom inn á radar eða það sem kallað var GCA sem stendur fyrir Ground Control Approach. Þegar hún var lent segir ungur maður í radartækinu frá aðflugsstjórninni í Reykjavík: „Heyrðu, ég sé hérna flugvél suð-austan við völlinn, er hún ekki næst að koma inn á radarnum, því það er alveg ólendandi í Reykjavík?“.“
Flugvélin sem hafði komið stuttu áður frá Bandaríkjunum hafði þá fengið aðstoð við að lenda í gegnum leiðbeiningar frá radarnum á Keflavíkurflugvelli og ungi maðurinn frá aðflugsstjórninni á Reykjavíkurflugvelli var að spyrja flugumferðastjórann á Keflavíkurflugvelli hvort hann gæti ekki leiðbeint Glitfaxa við að lenda á Keflavíkurflugvelli.
Samskiptin héldu áfram.
„Þá segir flugumferðastjórinn í Keflavík, sem var Bandaríkjamaður, „Stand By“, sem þýðir bíddu. Hann kallar í flugmanninn og segir honum að radarinn sé tilbúinn til að aðstoða hann við að koma inn í Keflavík því það sé ólendandi í Reykjavík og spyr hvort hann vilji ekki vera næstur í röðinni að lenda með hjálp radarsins. Eftir sirka 10-15 sekúndur kom svar: „Ætla að lenda í Reykjavík.“ Þá segir strákurinn í GCA-tækinu „Hann getur alls ekki lent í Reykjavík, viltu ekki spyrja hann aftur hvort hann vilji ómögulega nota sér aðflugið. „Stand by“ segir flugumferðastjórinn þá. Hann kallar aftur í flugvélina og segir honum það að það sé ómögulegt að lenda í Reykjavík og spyr hvort hann vilji ekki nota sér það að koma inn með aðstoð aðflugsins í Keflavík.“ Nikulás segir að þá hafi liðið um hálf mínúta en svo hafi svarið komið frá flugmanninum: „Ætla að lenda í Reykjavík.“ Sagði Nikulás að ungi maðurinn í GCA tækinu, sem hafi verið afar góður í sínu fagi hafi þá sagt: „Jesus Christ!“ Nikulás sagði að strákurinn hefði beðið þann bandaríska að bjóða flugmanni Glitfaxa í þriðja skiptið að lenda frekar á Keflavíkurflugvelli. „„Stand by“ segir flugumferðastjórinn og kallar enn einu sinni í flugvélina og svarið kemur bara frekar fljótt; „Ætla að lenda í Reykjavík“. Strákurinn í GCA tækinu varð alveg miður sín, hann var gráti nær. Hann var bara skjálfraddaður. Hann ætlaði ekki að trúa sínum eigin eyrum.“
Samband við vélina slitnar
Nikulás sagði í samtali við Mannlíf að þegar þarna var komið við sögu hafi hann og vinnufélagi hans vitað hvað ætti eftir að gerast. „Við vorum búnir að sjá fyrir hvað myndi ske ef þetta myndi ganga svona og við þurftum að vinna úti við þannig að við fórum úr turninum. Við vorum að gera við ljós eða eitthvað í svona hálftíma, þrjú kortér. Þá fórum við aftur inn í flugstöð sem þá var inni á hótelinu, þá var það nýtt. Nema hvað, þar æða menn um gólf og hárreita sig nánast. Það var bara uppi fótur og fit því að sambandið við vélina hafði slitnað.“ Útskýrði Nikulás að margir þeirra sem þutu um gólfið hefðu verið íslenskir flugmenn sem ekki höfðu fengið önnur störf hjá flugfélaginu, önnur en þau að keyra strætisvagna fyrir flugfélagið.
Aðspurður um það sem áður hefur komið fram, að flugstjóra Glitfaxa hafi verið ráðlagt að taka hring út á Faxaflóa og reyna í annað skiptið að lenda í Reykjavík, segir Nikulás það vel geta staðist en það hafi þá gerst eftir að flugstjórinn hafi neitað að lenda á Keflavíkurflugvelli. Með Glitfaxa fórust 17 farþegar og þrír áhafnarmeðlimir en flugvélin hefur aldrei fundist.