Landsmenn söfnuðust saman í helstu stórmörkuðum landsins þegar mjólkurlíterinn fór niður í eina krónu en samkeppni milli matvöruverslana hafði sjaldan verið meiri. Vikurnar áður hafði staðið yfir nokkurskonar stríð en verð á matvörum lækkaði stöðugt á milli verslana. Í mars árið 2005 birtist mynd á forsíðu Morgunblaðsins þar sem sjá mátti viðskiptavini fylla innkaupakörfurnar.
„Viðskiptavinir í gær gátu t.d. keypt kíló af banönum á 32 krónur, léttmjólkur- og nýmjólkurlítra á 10 krónur, fimm krónur eða eina krónu eftir því hvenær dagsins var og skyrdolluna á 27 krónur,“ sagði í frétt Morgunblaðsins.
Rekstrarstjóri verslunarinnar Kaskó, Stefán Guðjónsson, var jákvæður þegar hann ræddi við blaðamann Morgunblaðsins um verðstríðið.„Það er slagur í gangi og við ætlum ekki að láta okkar eftir liggja,“ segir Stefán.
Sigurður Arnar Sigurðsson, þáverandi forstjóri Kaupáss sem rak Krónuna á þessum tíma virtist ekki eins ánægður með verðlækkanirnar „Þetta er langt frá því að vera eðlilegt verð, og er eiginlega orðið hlægilegt, en ef þetta þarf til þess að vera með virka samkeppni á matvörumarkaði, munum við gera það,“ sagði Sigurður í samtali við Morgunblaðið.
„Ég versla yfirleitt í Bónus en ákvað að skipta fyrst Krónan er búin að lækka verð. Ég finn mjög mikinn mun á verðinu. Nú er ég að fara að halda saumaklúbb og í staðinn fyrir að greiða um 200 krónur fyrir gosflöskuna kaupi ég hana á fjórðungi þess verðs.“ sagði viðskiptavinur.
Landsmenn yrðu eflaust ánægðir með sambærilega samkeppni í dag en matvöruverð hefur hækkað töluvert síðustu ár líkt og flest önnur nauðsynjavara.