Guðrún Aspelund mun taka við starfi sóttvarnalæknis af Þórólfi Guðnasyni frá og með 1. september næstkomandi. Þessu er greint frá á vef landlæknis.
Guðrún starfar sem yfirlæknir á sviði sóttvarna hjá landlæknisembættinu, hefur embættispróf í læknisfræði frá Háskóla Íslands og sérfræðimenntun í almennum skurðlækningum og barnaskurðlækningum. Hún var lektor og barnaskurðlæknir við Columbia-háskóla á árunum 2007 til 2017.
„Ég hef öðlast góða sýn á starf sóttvarnalæknis undanfarin ár og sé í starfinu tækifæri til að láta gott af mér leiða. Ég geri mér grein fyrir að starfinu fylgir mikil ábyrgð og ég hlakka til að takast á við verkefnin sem eru framundan,“ segir Guðrún.
Þórólfur Guðnason lætur af störfum sem sóttvarnalæknir í byrjun september, en hann verður 69 ára á þessu ári. Starfið var auglýst 13. maí síðastliðinn með umsóknarfrest til og með 13. júní. Guðrún var sú eina sem sótti um stöðuna.
Á vef Landlæknis kemur fram að ráðning hafi verið ákveðin út frá mati á umsókn og ítarlegu viðtali við umsækjanda. Þau sem önnuðust ráðninguna voru Alma D. Möller, landlæknir, Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Unnur Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði við Læknadeild Háskóla Íslands og Þórgunnur Hjaltadóttir, sviðsstjóri hjá embætti landlæknis.
„Ég er mjög ánægð með ráðningu Guðrúnar í starf sóttvarnalæknis. Hún er með góða menntun og reynslu sem mun nýtast en hefur einnig til að bera nauðsynlega eiginleika fyrir krefjandi starf sóttvarnalæknis, m.a. góða samskiptahæfni, vinnusemi, skipulagshæfni, sjálfstæði og yfirvegun,“ segir Alma D. Möller landlæknir um ráðninguna.