Íslenska þjóðin er að titra úr spenningi fyrir nýju Barbie-myndinni. Mannlíf ræddi við Tómas Valgeirsson, fjölmiðlamann og bíónörd, um eftirvæntinguna og myndina
Barbie kvikmyndin verður frumsýnd á Íslandi 20. júlí en leikkonan Margot Robbie leikur Barbie en hún er þekkust fyrir leik sinni í kvikmyndinni Wolf of Wall Street og sem persónan Harley Quinn í DC-kvikmyndaheiminum. Ryan Gosling leikur aðalkarlhlutverkið, en það er persónan Ken. Kvikmyndin hefur verið í bígerð síðan árið 2015 en upphaflega stóð til að Amy Schumer myndi leika Barbie og um tíma var Anne Hathaway orðuð við hlutverkið. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Greta Gerwig leikstýrir myndinni og skrifar, ásamt Noah Baumbach, en hún þykir ein af bestu leikstjórum heimsins í dag. Hún hefur gert myndirnar Little Women og Lady Bird en báðar myndirnar fengu Óskarstilnefningu fyrir besta handrit. Gerwig skrifaði þær myndir einmitt sjálf.
Gífurleg spenna og áhugi, bæði hérlendis og erlendis, er fyrir Barbie-myndinni en þykir auglýsingaherferð myndinnar hafa verið ein sú besta sem sést hefur í áraraðir. Sumir hafa spáð að nýtt Barbie-æði muni ganga yfir heiminn í kjölfar myndinnar hjá ungum sem öldnum
„Ég ólst upp sem Spice Girls aðdáandi og bíófíkill en í senn sem miðjubarn umkringdur sjö hálfsystkinum. Þetta þýðir meðal annars það að við mér lá ógrynni af leikföngum; frá Turtles kalla til Rambo fígúra og að sjálfsögðu laumuðust nokkrar Barbie með. Ég djóka stundum með það að þegar ég lék mér að Barbie-dúkkum í æsku að í mínum leik hafi hún alltaf haldið framhjá Ken með Action Man. Fannst það einhvern veginn meika mest ‘sense’, fyrir utan það að Ken var aldrei til á mínu heimili,“ sagði Tómas um upplifun sína á Barbie í gegnum árin.
Tómas er fullur af spennu fyrir myndinni og telur að hún verði fín tilbreyting. „Ég er bandbrjálað spenntur fyrir þessari Barbie mynd. Leikaravalið og tónninn virðist vera algjör negla og ég er mikill aðdáandi Gretu Gerwig sem leikstjóra með meiru. Hef alla trú á að hún matreiði eitthvað hresst og gúrme úr þessu, jafnvel eitt ferskasta sumarbíó til margra ára. Fín tilbreyting líka frá áttræðum eða sextugum karlpungum að stökkva á milli lesta.“
Kvikmyndin Oppenheimer, í leikstjórn Christopher Nolan, kemur út á sama degi og Barbie og hefur fólk á internetinu mikið spáð í hvor myndin verði vinsælli.
„Það er klárlega ‘hæp’ fyrir myndinni en ennfremur finnst mér brill hvernig er búið að sjóða saman spenningnum fyrir Barbie og Oppenheimer í þessa ‘Barbenheimer’ maníu. Við erum svo vön því að aðeins ein bíómynd fái að komast að í einu á hverri helgi sumars en þarna hafa netheimar sýnt að það sé til pláss fyrir fleiri í sömu röð. Barbie verður klárlega vinsælli myndin; aðgengilegri, hressari og sameinar bæði bíónördana og almenning. Auk þess er ‘brandið’ of sterkt til að hafa ekki yfirhöndina. Ég get líka farið á Barbie með 11 ára dóttur minni til dæmis, en get ekki sagt hið sama um nýjasta stórvirki Nolans. En hvor þeirra verður betri á sinn veg á hins vegar eftir að koma í ljós.“