Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Óeðlilegur hagnaður bankanna: „Íslendingar borga miklu meira fyrir verri bankaþjónustu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrr á þessu ári samþykkti Fjármála- og efnahagsráðherra tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu eignarhluta ríkisins á Íslandsbanka, eins og frægt er orðið.  Í greinargerð Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra segir að helstu markmið með sölu ríkisins á hlutum þess í Íslandsbanka séu meðal annars að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu, að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma, að auka fjárfestingarmöguleika fyrir innlenda einstaklinga og fagfjárfesta, og að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga.

Þingmenn stjórnarandstöðu ræddu söluna á hluta Íslandsbanka á Alþingi eftir söluna í lok mars þessa árs og gagnrýndu það harðlega hve brátt hana hafi borið að. Ekkert gagnsæi hafi verið við söluferlið, of mikill afsláttur gefinn og kallað var eftir formlegri umræðu í þingsal.

Fjárfestar eru almennt ekki sólgnir í að kaupa í bönkum erlendis

Linda H. Blöndal, fjölmiðlakona á Hringbraut ræddi við Jón Daníelsson, hagfræðiprófessor við London School of Economics í fréttavaktinni í gær. Rætt var um söluna á hlutabréfunum og spurt hvernig íslensku bankarnir séu reknir og hvernig þeir eru samansettir?

„Það merkilega við allt þetta mál er ekki hvernig var staðið að sölunni, heldur af hverju er þetta svona mikið mál? Því ef við skoðum banka í Evrópu, Bretlandi og í Bandaríkjunum þá eru þeir ekki að skila neinum hagnaði. Þannig að fjárfestar eru ekkert sólgnir í að kaupa. Ef það hefði verið svipað útboð í Evrópu eða í Bandríkjunum þá hefði verið afskaplega erfitt að fá einhvern til þess að kaupa þessa hluti. Þannig að spurningin er sú, hvað veldur því að fjárfestar eru svona sólgnir í þessa íslensku banka?“

Íslenskir bankar skila miklu meiri hagnaði

Af hverju eru íslenski bankar öðruvísi en bankar annarsstaðar?

„Svarið er tiltölulega augljóst. Íslenskir bankar eru að skila miklu meiri hagnaði heldur en bankar annarsstaðar, sem er tiltölulega óeðlilegt.

- Auglýsing -

Það er oft sagt að það séu einhver íslensk leið. Það sem veldur þessu er það að íslensk bankaþjónusta er sú allra dýrasta í Evrópu og sú allra versta. Þannig að Íslendingar eru að borga miklu meira fyrir miklu verri bankaþjónustu, heldur en gengur og gerist í löndunum í kringum okkur.

Þetta einfaldlega býr til þennan gríðalega hagnað sem bankarnir hafa verið að skila á undanförnum árum. Og það sem skýrir þessa sókn í þessi hlutabréf er að fjárfestar eru að horfa á þennan gríðalega hagnað sem bankarnir búa til.“

Neytendur borga hagnaðinn

Eru neyendur þá sem eru að borga þennan hagnað alfarið?

- Auglýsing -

„Það er auðvitað við öll sem borgum fyrir þetta. Því Íslendingar eru að borga miklu meira fyrir miklu verri bankaþjónustu og eru að búa til hagnað fyrir þá sem eiga bankana.“

Þá er spurningin. Af hverju var þessu leyft að verða svona?

„Það er alltaf bent á að Ísland sé lítið. Það er alveg rétt – Ísland er lítið og erlendir bankar vilja ekki starfa hérna vegna þess hversu markaðurinn er lítill. Ekki getum við stækkað landið. En ef við skoðum ástæðuna á bak við þetta, þá getum við horft aftur til hrunsins 2008, en þá voru settar upp girðingar til að vernda banka frá gjaldþroti. Það sem þessar girðingar gera er að hefta bankana frá samkeppni sem leiðir til þess að þeir eru að fá þennan fákeppnishagnað.

Þannig að í rauninniá bak við þetta er að fjármálaeftirlitið og stjórnvöld á síðustu 15 árum hafa búið til og stuðlað að því að fjármálakerfið yrði á þann hátt að Íslendingar þurftu að borga miklu meira fyrir verri þjónustu.“

Þeir sem voru svo heppnir að geta keypt í bönkunum fá hagnaðinn

Hver hagnast mest á þessu fyrirkomulagi?

„Þeir sem hagnast mest á þessu eru eigendur bankanna. Ríkið hagnast náttúrulega á því líka ef ríkið getur selt þessa hluti á háu verði. En eftir að íslenska ríkið er búið að koma þessum bréfum frá sér þá skilar þessi hagnaður einungis til þeirra sem eru nógu heppnir eða voru nógu hraðir til þess að kaupa hlutabréf í bönkunum. Þannig að þetta er í raun og veru, það að við höfum búið til þessar girðingar til að verja bankana fyrir samkeppni sem leiðir til þess að þeir skila þessum óeðlilega hagnaði með hærra verði og verri þjónustu. Það leiðir til þess að þeir sem eru svo heppnir að geta keypt í bönkunum fá þennan hagnað.“

Hvað er svona slæmt við þjónustuna hér á landi?

„Hvað það er erfitt að ná sambandi við bankana. Hvað þú borgar mikið fyrir lán. Hvaða vörur eru boðnar upp á. Hvað kostar mikið að kaupa þjónustu eins og gjaldeyrisflutning eða hlutabréf. Þannig að þjónustan sem er veitt á Íslandi er dýrari og fábreytnari.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -