„Hvað segja þá hinar stelpurnar, er ekkert verið að glápa í laumi á svona hrikalegar valkyrjur í sturtuklefanum?“
Svo spyr blaðamaður Morgunblaðsins lyftingakonuna ungu, Úlfhildi Örnu Unnarsdóttur, í viðtali sem blaðið birti á sunnudag.
Tilefni viðtalsins er frábær árangur Úlfhildar á heimsmeistaramóti undir 17 ára í ólympískum lyftingum, í Jeddah í Sádi-Arabíu, hvar hún setti nýtt Íslandsmet í snörun. Úlfhildur er 16 ára gömul.
Blaðamaður Morgunblaðsins bætir við, í samhengi við sturtuferðirnar og gláp annarra stúlkna á íþróttakonuna ungu:
„..eins og sjá má af myndum með þessu viðtali er vöðvamassi Úlfhildar töluvert meiri en meðalkonu.“
Fólk keppist við að fordæma orðræðuna á Twitter. Í færslu frá feminíska baráttuhópnum Öfgum segir:
„Hvernig í veröldinni getur það talist siðlegt að spyrja íþróttakonuna, sem er þar að auki barn, út í sturtuferðir hennar?“
Fyrirsögn viðtalsins á mbl.is er: „Auðvitað er alltaf glápt á mann“.
Edda Falak lætur sitt ekki eftir liggja í umræðunni, en hún kom einnig í viðtal í síðdegisútvarp rásar 2 í gær til að ræða málið.
„„Úlfhildur setti nýtt Íslandsmet í snörun“ hefði sæmilega gengið sem fyrirsögn,“ segir Edda í færslu sinni um málið á Twitter.
„Og leyfið mér aðeins að undirstrika hversu í alvöru sturluð þessi fyrirsögn er: Úlfhildur er top10 sterkasta 16 ára stelpa í HEIMI,“ bætir Edda við.
„Flott viðtal við flotta stelpu en þessi spurning var óviðeigandi og fyrirsögn er clickbait líklega vegna allra þessara andstyggilegu mála sem eru í gangi,“ segir Elías í athugasemd við færslu Eddu.
„Vá andsk niðurlægjandi kjaftæði er þetta???? Stelpan er að gera magnaða hluti OG ÞETTA er fyrirsögnin. Eitt orð yfir þetta Æla!!!!,“ segir Ingibjörg.
Örn sér samhljóm í málinu og viðmóti gagnvart hans eigin dóttur:
„Ég er að fylgjast með því hvernig talað er við dóttur mína vs. kk. jafnaldra hennar og það er shocking. Þvílíkur ofurfocus á útlit og klæðnað á meðan strákarnir fá samtöl um áhugasvið og getu. „En hvað þú ert fín“ eða „voðalega er þetta flottur kjóll“ eru standard conversations.“
Óskar sýnir í athugasemd sinni skjáskot af tölvupósti sem hann virðist hafa sent blaðamanni mbl.is, sem tók viðtalið við Úlfhildi:
„Sæll Atli, af hverju er fyrirsögn þegar kona setur Íslandsmet á heimsmeistaramóti „auðvitað er alltaf glápt á mann“? Afhverju þarf alltaf að vera kynferðislegur undirtónn? Þetta sýnir afreki hennar lítilsvirðingu. Þú myndir aldrei setja svona fyrirsögn hjá karli, afhverju henni? Var fyrirsögnin „Úlfhildur setur Íslandsmet í snörun“ ekki nógu góð?
Kveðja,
Árið 2021.“