Líflegar umræður hafa skapast á milli íbúa í Breiðholti um kanínur sem lifa villtar í Elliðaárdalnum allt árið um kring. Einn íbúi, maður að nafni Björn, er hvumsa yfir því að kanínurnar fái að lifa villtu lífi í dalnum. Lætur hann skoðanir sínar í ljós í Facebook hópi Breiðhyltinga. ,,Þær naga allt sem tönn á festir,“ segir hann, og bætir við: ,,Þær naga allan börk sem þær ná í og drepa trén á stórum svæðum. Þetta er ein versta aðferð sem ég hef séð. Ef börkur er étinn allan hringinn þá er tréð dautt.“
Vetrarkuldinn getur gert kanínunum erfitt fyrir því þá er lítið um æti fyrir þær. Stofnuð voru samtökin Villikanínur fyrir ekki alls löngu síðan og sjá samtökin um það að fóðra kanínurnar yfir vetrarmánuðina.
,,Við hjá Villikanínum höfum leyfi frá Reykjavíkurborg til þess að fóðra kanínurnar daglega,“ segir Margrét, stofnandi samtakana. ,,Engar áhyggjur, þær svelta ekki á veturna. Þær fá að borða daglega og eyðileggingar á trjám hafa snarlega minnkað eftir að þessum matargjöfum var komið á stað,“ segir hún jafnframt.
Margir íbúar í Breiðholti taka þátt í umræðunum um kanínurnar og hrósa framtakssemi Villikanína. Þá vilja sumir meina að þeim sé best borgið í Húsdýragarðinum, hvernig sem á það er litið. ,,Þetta eru alveg rosalega stórvaxnar kanínur,“ hefur einn íbúanna orð á. ,,Má ekki veiða þetta og fóðra Húsdýragarðinn?“ spyr einn.
,,Eða bara éta þær. Kanínur eru alveg rosalega góður matur,“ bætir annar við.
Hvað finnst lesendum? Hvort eru kanínur krútt eða plága?