Laugardagur 28. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Ögmundur fordæmir ríkisstjórn Íslands: „Þið getið ekki þvegið hendur ykkar af blóði þessa fólks“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölmennt var á Austurvelli í gær á útifundi til að mótmæla fjöldamorðum á Gaza-ströndinni. Ræðumenn voru nokkrir en Sólveig Anna Jónsdóttir var ein þeirra sem og Ögmundur Jónasson. Þá söng Magga Stína tvö lög af einstakri snilld.

Fáni Palestínu – Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

Mikill meirihluti mótmælenda voru af íslensku bergi brotnir en þó var nokkuð stór hópur Palestínumanna á fundinum og settu sinn svip á hann með baráttusöngvum.

Palestínskir mótmælendur. Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

Ögmundur Jónasson hélt sannkallaða eldræðu á fundinum en þar fordæmdi hann ríkisstjórn Íslands fyrir að leggja blessuð sína yfir „grimmdarverk, morð og eyðileggingu Ísraelshers.

Eldræðuna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

Í Palestínu logar ófriðarbál.

Þarf að taka það fram?

Er ekki öllum augljóst að sú er raunin?
Erum við ekki að fá fréttir af hernaði á hverjum degi og oft á dag?
Erum við ekki að fá fréttir af grimmdarverkum, morðum, mannránum, eyðileggingu á híbýlum manna, sjúkrahúsum, barnaheimilum, – og svo enn fleiri morðum?
Eru þetta ekki fréttir af stríðsvígvelli? Það er að vísu ekki hægt að tala um stríðandi fylkingar, til þess er ójafnræðið of mikið,
– en stríð er þetta engu að síður.

Og aftur spyr ég: Þarf að taka það sérstaklega fram?
Jú, það þarf að taka það fram.

Það þarf að taka það fram að verið er að heyja stríð vegna þess að fréttirnar eru af allt öðru.
Fréttirnar eru af ríki sem er að verjast árásum hryðjuverkamanna.

- Auglýsing -

Ríkið er Ísrael, hryðjuverkamennirnir eru Palestínumenn.

Og svo er því bætt við að ríkið hafi fullan rétt á því að verjast.
Verjast árásum hryðjuverkamanna.

Þannig talar Ísrael, og þannig talar öflugasta herveldi jarðarinnar, Bandaríkin, þannig talar NATÓ og þar er Ísland; Ísraelsríki hafi rétt á því að verjast Palestínumönnum segir ríkisstjórn Íslands.

Og ef þið ætlið að halda öðru fram þá bönnum við ykkur að segja það, og ef þið vogið ykkur að sýna fána hryðjuverkaþjóðarinnar þá eruð þið ógn við öryggi heimsins. Seint hefði því verið trúað að þessi yrði veruleikinn í Frakklandi, Þýskalandi og Bretlandi. En þannig er það.

- Auglýsing -

Og það er líka þannig að þegar því er lýst yfir að Ísrael hafi rétt á að verja sig þá þýðir það að Ísraelesríki hafi rétt á að verja aðskilanaðrstefnuna, að verja landránsbyggðirnar, að verja gegndarlaust ofbeldi til áratuga. Það er merkingin, það er merkjamálið sem allir skilja. Það er leyfilegt að gagnrýna Ísrael ef það fylgir með að Ísraelsríki hafi rétt á að verja sig. Og það lætur ríkisstjórn Íslands og hinn hlutdrægi NATÓ-heimur alltaf fylgja með.

Ef þetta væri ekki veruleiki heldur bara saga sem okkur væri sögð einhvern hversdaginn, helst frá löngu liðnum tíma, hver væru viðbrögð okkar?
Og vel að merkja, áróðursmenn kæmu hvergi nærri, bara veruleikinn lagður á borð; aðeins blákaldar staðreyndir um landrán, innilokun og úitilokun, um gömlu verslunargötuna í Hebron sem menn höfðu strengt net yfir því uppi yfir götunni var varðturn ísrealska hernáms hersins sem losaði eigin úrgang yfir þá sem voru undir, yfir venjulega fólkið að fara út í búð að kaupa í matinn.
Smátt dæmi í ljósi blóðugra ofbeldisverka sem framin eru á varnarlausu fólki en táknrænt og mér eftirminnilegt þvi ég sá þetta sjálfur. Ég sá margt fleira og aðrir hafa séð miklu verri dæmi um blóðugt ofbeldi og yfirgang. En það er ekki alltaf blóði drifið ofbeldið sem meiðir mest,
sem lengst varir,
sem varir alla daga,
á hverjum degi,
í hverri viku,
mánuð eftir mánuð
og ár eftir ár,
á hverjum degi svo lengi sem ég hef lifað, í 75 ár.

Ef allir fengju að heyra slíkar frásagnir án þess að burðast með fyrirfram gefnar skoðanir, án þess að hafa fellt dóma að óathuguðu máli, for-dóma,
þá yrðum við öll sammála um ranglætið.

Við erum fyrir löngu öll orðin því sammála að þrælahald átti sér aldrei neina réttlætingu, enginn deilir um að hryllingur helfarfarar nasista eigi sér vart hliðstæðu í grimmd.
Nú fella allir tár yfir Kofa Tómasar frænda og Dagbókum Önnu Frank – og allt er þetta óumdeilt.
En allt er þetta liðin tíð.

Við Miðjarðarafið loga eldarnir hins vegar núna.

Það var á miðnætti að stjórnendum á sjúkraúsi á Gaza var fyrirskipað að tæma sjúkrahúsið fyrir dögun því til stæði að sprengja það í loft upp við sólarupprás.
Eftir tvö hundruð ár verða allir sammála um að hér var framið níðingsverk.

En við bíðum ekki í tvö hundruð ár með að láta frá okkur heyra.
Nei, við tölum núna.

Við eigum að tala hátt og skýrt og krefjast þess að morðæðinu linni.

Við ríkisstjórn Íslands segi ég þetta:
Þið fordæmið morð framin af Hamasliðum, grimmdarverk á hendur saklausu fólki.
Ég tek undir þá fordæmingu en ég fordæmi jafnframt að þið skulið leyfa ykkur að leggja blessun yfir grimmdarverk, morð og eyðileggingu Ísraelshers, ofbeldi á hendur saklausum borgurum, heilu samfélagi, því það hafið þið gert.

Þið getið ekki þvegið hendur ykkar af blóði þessa fólks.
Það gerið þið aðeins með því að segja afdráttarlaust að Ísraelsríki hafi ekki rétt á þessum ofbeldishernaði, með því að setja fram afdráttarlausar kröfur um að blóðbaðinu, árásarstríði Ísraelshers, verði hætt þegar í stað og það sem meira er, rofin verði vítahringur haturs og hefndar með því að leggja af ólöglegar landránsbyggðir og virða landamærin sem Sameinuðu þjóðirnar hafa margorft ályktað um, með því að opna stærsta fangelsi heimsins, Gazasvæðið, þar sem búa rúmlega tvær milljónir manna á svæði svipuðu að stærð og Reykjavík og Kópavogur; að leggja af aðskilnaðarstefnuna, að leggja af rasismann.

Aldrei hefðu menn vogað sér að segja að kynþáttastjórnin í Suður-Afríku hefði átt rétt á að verja sig með því að ráðast enn harðar að svörtu fólki, ekki bara ANC hreyfingu þeirra Nelsons Mandela og Desmonds Tutu – nei, gegn öllu svörtu fólki, bara muna að það verði gert af mannúð! Með öðrum orðum, að hinir sjúku fái ráðrúm til að yfirgefa sjúkrahúsin skipulega áður en sprengt er við sólarupprás.

Ísland á að segja, við fordæmum ofbeldið, við fordæmum allt ofbeldi sem beint er gegn heilu samfélagi, sem beint er gegn gegn varnarlausu og saklausu fólki.

Ríkisstjórn Íslands, Alþingi, hver einasti maður verður að rísa upp með þessar kröfur á lofti.
Það gerum við núna.
Við bíðum ekki í hundrað ár.
Stöðvið morðin.
Stöðvið árásarher Ísraels.
Stöðvið eyðilegginguna.
Stöðvið stríðsglæpina.
Stöðvið þá núna.

Unglingur sveiflar fána Palestínu. Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -