Eitt og annað hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurft að huga að frá fimm í morgun til fimm í dag, samkvæmt dagbók hennar.
Lögreglan sem sér um miðborg Reykjavíkur fékk tilkynningu um tvo aðila sem höfðu haft í hótunum við húsráðanda og að annar þeirra hefði verið vopnaður hnífi. Tilkynningunni fylgdi að þeir væru á leið af vettvangi en lögreglan fann þá stuttu síðar en þeir fóru ekki að fyrirmælum hennar og hlupu í burtu. Skömmu síðar náðusti þeir þó og voru þeir báðir handteknir og vistaðir vegna málsins
Þá var tilkynnt um brotna rúðu í skóla en ekki var vitað hvort farið hafi verið inn í húsnæðið eða ekki.
Hleðslustöð Nova varð eldi að bráð en samkvæmt tilkynningunni var eldsvoðinn ekki talinn alvarlegur.
Tilkynning barst einnig frá bílastæðahúsi Kringlunnar en þar hafði ökumaður keyrt á vegg og síðan gengið inn í Kringluna eins og ekkert væri. Ekki fylgdi sögunni hvernig málið endaði.
Nokkur dæmi voru um aðila sem óku undir áhrifum fíkniefna eða áfengis og svo var tilkynnt um þjófnað á bifreið. Þá var einnig tilkynnt um innbrot á vinnusvæði sem olli einhverjum skemmdum og verkfæri voru tekin.
Að lokum segir frá eld sem kviknaði í ruslagámi við Spöngina.