Eiríkur Guðmundsson frá Dröngum í Strandasýslu lenti í eftirminnilegri lífsreynslu þegar hann fór á tófuveiðar 19 ára gamall. Hann og félagar hans upplifðu dulræn fyrirbæri sem enn hefur ekki fengist skýring á.
Þetta var um hávetur, í febrúarmánuði árið 1914. Eiríkur var með tveimur öðrum mönnum við refaveiðarnar, einkum í landareign fjögurra eyðibýla, í Barðsvík, Smiðjuvík, Bjarnarnes og Látravík.
Þegar mennirnir þrír komu að bænum Smiðjuvík hafði snjóað mikið á svæðinu og þurftu þeir að byrja á því að moka. Þegar mokstrinum var lokið fengu þeir sér heitt kaffi og bjuggu um sig í litlu, illa einangraðu herbergi. Um nóttina skall á óveður og snjóaði inn í herbergið.
Allt í einu heyrðu mennirnir undarlegan smell fyrir utan herbergið, þeir höfðu sett loku fyrir útidyrahurðina svo þangað gat enginn verið kominn. Á svæðinu voru engar mannaferðir, sérstaklega um þennan tíma árs.
Á eftir smellinum heyrðist þungt fótatak inn eftir göngunum og færðist nær herberginu þar sem mennirnir voru. Þeir heyrðu allir fótatakið og brakið í gólfinu og stuttu síðar heyrðust raddir, líkt og hæðin fyrir neðan þá væri full af fólki. Mennirnir heyrðu kvennmanns-, karlmanns og barnaraddir og hljómuðu raddirnar glaðlegar. Þeim fannst þó undarlegt að enginn þeirra gat skilið hvað fólkið var að segja, þó raddirnar væru mjög háværar. Oft var eins og einhver gengi að hurðinni hjá mönnunum og staðnæmist þar, eins og verið væri að hlusta á eftir þeim.
Þetta hélt áfram í nærrum þrjá tíma eða þangað til einn mannana sagði, „Þetta er ömurlegt kvöld.“ Þá þagnaði allt.
Mennirnir segja þessa reynslu hafa verið einstaka, þeir hafi ekki verið hræddir enda fullvopnaðir en Eiríkur játaði það, að þarna hefði hann ekki viljað vera aleinn.