Laugardagur 23. nóvember, 2024
-6.2 C
Reykjavik

Óhugnalegt hvarf Valgeirs – Grunur um saknæmt athæfi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar faðir Valgeirs Víðissonar kom af sjónum, náði hann engu sambandi við son sinn. Eftir ítrekaðar tilraunir hafði hann loks samband við lögreglu og kom þá í ljós að enginn hafði séð til, né talað við Valgeir í heila viku.

Valgeir var fæddur þann 11.júlí árið 1964. Faðir hans bjó í Reykjavík en Valgeir ólst upp að mestu leiti hjá móður sinni í Vestmannaeyjum. Þegar hann var kominn á unglingsár flutti hann í höfuðborgina til föður síns. Ungur byrjaði Valgeir að fikta við fíkniefni, því fylgdu ýmis smávægileg lögbrot en hann hafði meðal annars verið handtekinn fyrir vörslu fíkniefna.

Þegar Valgeir var orðinn þrítugur hafði hann þróað með sér fíknisjúkdóm og var handtekinn, ásamt nokkrum öðrum, fyrir að flytja til landsins töluvert magn af fíkniefnum.

Faðir Valgeirs sagði son hans setið undir hótunum frá mönnum í undirheimum Reykjavíkur. Hann vissi þó ekki hvort það tengdist innflutningnum og því að efnin hafi ekki skilað sér í réttar hendur.

Þann 19.júní árið 1994 var Valgeir í símasambandi við vinkonu sína og sagði henni að hann ætti von á mikilvægu símtali. Meira heyrðist ekki í Valgeiri.

Um kvöldið yfirgaf hann íbúð sína við Laugaveg 143 í Reykjavík á dökkleitu hjóli. Hann skyldi eftir kveikt ljós og sjónvarpið í gangi, einnig var mynd sem Valgeir var að mála á striga í stofunni. Því leit allt út fyrir að hann hafi ætlað sér rétt að skreppa en enginn vissi hvert ferð hans var heitið. Hann var klæddur í leðurjakka, gallabuxur og reimuð stígvél. Þegar faðir Valgeirs náði engu sambandi við son sinn hófst strax umfangsmikil leit að honum, enda var vika liðin síðan nokkur gat sagt til um ferðir hans. Margar ábendingar bárust lögreglu og lá fljótlega sá grunur að hvarf hans hafi orðið með saknæmum hætti. Valgeir skuldaði háar fjárhæðir í undirheimum landsins.

- Auglýsing -

Vinur Valgeirs tók svokallað fílófax úr íbúð hans en það er nokkurskonar skipulagsdagbók. Vinurinn skilaði bókinni til lögreglu eftir að búið var að rífa úr henni nokkrar blaðsíður sem höfðu að geyma dagana fyrir hvarfið. Lögregla náði aldrei neinni trúverðugri útskýringu á þessu frá vininum en hann var þó ekki talinn eiga aðild að hvarfi Valgeirs.

Eftir margar yfirheyrslur og ábendingar færðist lögregla ekkert nær því að finna Valgeir og var hann að lokum úrskurðaður látinn árið 2000.

Árið 2001 komu þó nýjar upplýsingar um málið upp á yfirborðið og voru tveir menn handteknir, annan þeirra þurfti að framselja frá Hollandi þar sem hann sat í fangelsi. Áttu þessir menn að hafa hitt Valgeir kvöldið örlagaríka í bílastæðahúsi í Reykjavík vegna fíkniefnaskuldar. Þar áttu þeir að hafa gengið svo illa í skrokk á honum að hann hafi látið lífið og þeir svo falið líkið á óþekktum stað.

- Auglýsing -

Það sem studdi þennan grun var að stuttu eftir hvarf Valgeirs fór annar mannana með bílinn sinn á verkstæði og bað um að selja hann í brotajárn, hann sagði bílinn ryðgaðan og illa farin að ekki yrðu frekari not af honum. Manninum á verkstæðinu fannst þetta undarlegt þar sem bíllinn var í fínu standi, ennþá skrítnara var þó að í hann vantaði alla innréttingu. Skömmu síðar kom þriðji maðurinn á verkstæðið og ítrekaði mikilvægi þess að bílnum yrði fargað sem fyrst.

Yfirheyrsla yfir mönnunum skilaði þó engum árangri og var þeim að lokum sleppt enda neituðu þeir því staðfastlega að hafa eitthvað með hvar Valgeirs að gera.

Árið 2011 reyndi barnsmóðir Valgeirs að fá málið tekið upp á nýju, bæði hún og faðir hans voru ósátt við rannsóknina og töldu hana verulega ábótavana. Faðir hans segir nær öruggt að Valgeir hafi verið myrtur.

Valgeir var einhleypur og átti einn son. Hann var lágvaxinn, grannur, skolhærður og með blá augu.

Vinsamlegast hafðu samband við lögreglu í síma 444-1000 ef þú telur þig hafa upplýsingar um málið.

Heimildir: Morgunblaðið, Helgarpósturinn, Saknað-Íslensk mannshvörf eftir Bjarka H.Hall

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -