Starfsmönnum Reykjanesbæjar var verulega brugðið á mánudaginn síðasta þegar æstur maður gekk á bæjarskrifstofur og stökk yfir þjónustuborðið en mbl.is greindi frá þessu í morgun.
Halldóra G. Jónsdóttir, aðstoðarmaður bæjarstjóra Reykjanesbæjar, sagði í samtali við mbl.is að maðurinn hafi verið íslenskur og krafðist þess að ná tali af ákveðnum bæjarstarfsmanni. Þegar honum var greint frá því að starfsmaðurinn væri ekki við, stökk hann yfir borðið og gekk inn á aðra deild. „Fólki var brugðið því hann var æstur,“ sagði Halldóra en enginn slasaðist. Manninum var fylgt út af starfsmönnum bæjarins en auk þess var lögregla kölluð á vettvang.