„Heilbrigðisráðuneytið, Félagsmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og kópavogsbær hafa fundað 3-4x um mál mömmu. Engin lausn né fréttir um framgang mála. Einnig fær fólkið hennar mömmu ekki boð á fundina né neina fundargerð eða hvað var rætt þrátt fyrir ítrekaða beiðni.“
Þetta segir Alexandra Sif Herleifsdóttir á Twitter en móðir hennar, Margrét Sigríður Guðmundsdóttir, er með MS-sjúkdóminn. Henni var tilkynnt fyrir þremur mánuðum að hún þyrfti að yfirgefa hjúkrunarheimili Seltjörn á Seltjarnarnesi, þar sem hún hefur búið undanfarin tvö ár.
Sjá einnig: Alexandra Sif Herleifsdóttir: „Mamma er í massífri baráttu við sjúkdóm sinn og kerfið“
Alexöndru grunar að ekki sé allt með feldu hvað þessa fundi varðar. „Bara svo mikil sóun á mannafli… Þarna grunar okkur að mamma sé notuð sem blóraböggull í samningaviðræðum og deilum á milli sveitarfélags og ríki. Hvernig væri bara að fara eftir lögum og laga þessa vitleysu.“