Fimmtudagur 26. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

„Okkur var aldrei boðin ein einasta pilla“ – Fóru á kraftlyftingamót með sviðasultu og harðfisk

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í nóvember árið 1981 hafði sænskur kraftlyftingamaður það á orði að allt hefði verið morandi í lyfjum á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum í Kalkútta. Á mótinu kepptu tveir Íslendingar, þeir Skúli Óskarsson og Jón Páll Sigmarsson. Sá sænski var handtekinn við komuna á Arlanda-flutvöll í Stokkhólmi eftir að tollverðir fundu yfir eitt þúsund „anabole-steroider“-pillur í fórum hans.

Fóru með sviðasultu og harðfisk í nesti

Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum var haldið Í Kalkútta á Indlandi dagana 4. til 8. nóvember árið 1981. Það vakti athygli að kraftlyftingamennirnir sem fóru út fyrir Íslands hönd, þeir Jón Páll Sigmarsson og Skúli Óskarsson, fóru með allan mat meðferðis frá Íslandi, sem borða átti meðan á mótinu stæði. Sagt var frá því í Morgunblaðinu að flugfreyjunum í flugvélinni á leið milli Bombey og Kalkútta hafi þótt kynlegt að sjá þá Jón Pál og Skúla gæða sér á sviðasultu og harðfisk í stað þeirra indversku kræsinga sem boðið var upp á í flugvélinni.

Þeim félögum gekk vel á mótinu; Skúli vann til bronsverðlauna í sínum flokki en Jón Páll hlaut silfur.

Sagði allt hafa flotið í pillum

Sænski kraftlyftingamaðurinn Ray Yvander hafði nokkrum árum fyrr keppt á Norðurlandamótinu í kraftlyftingum á Íslandi. Þegar töflurnar fundust í farangri hans játaði hann að þær væru í hans eigu, en lyfin voru ekki aðeins á bannlista tollvarða heldur einnig hjá íþróttahreyfingunni um allan heim. Yvander skyldi því sæta þungum sektum og að minnsta kosti tveggja ára banni frá þátttöku í íþróttamótum.

Stuttu síðar ræddi Yvander við sænska blaðamenn og sagði að allt hefði verið fljótandi í pillum á heimsmeistaramótinu í Kalkútta. Sagði hann bæði hafa verið um hormónalyf og örvandi lyf að ræða, sem hann sagði afar auðvelt hafa verið fyrir hvern þann sem vildi að nálgast; „[…] auðvelt að ná í þær þar fyrir þá sem vildu.“

Þvertók fyrir pilluflóð

Þegar þessi ummæli Yvander voru birt vildu íslenskir fjölmiðlar að vonum vita hvort þeir Skúli og Jón Páll könnuðust við þessar frásagnir hans. „Okkur var aldrei boðin ein einasta pilla þarna svo ég veit ekki hvað Svíinn er að fara með þessu,“ sagði Skúli. Hann sagðist jafnframt ekki hafa orðið var við neitt „pilluát“ eða lyfjasölu á mótinu.

- Auglýsing -

Í frétt Dagblaðsins&Vísis um málið kemur fram að þeir Skúli og Jón Páll hafi báðir verið teknir í lyfjapróf þegar þeir höfðu lokið keppni á mótinu. Þeir hafi báðir verið „alveg hreinir“. Það sama hafi ekki átt við um alla aðra keppendur. Þannig hafi tveir menn, annar Japani og hinn Bandaríkjamaður, verið dæmdir úr keppni vegna lyfjanotkunar og verðlaun þeirra tekin af þeim. Báðir höfðu mennirnir neitt hormónalyfja. Þetta komst upp þegar lyfjapróf voru framkvæmd á fimm efstu mönnum hvers flokks.

Mynd/skjáskot timarit.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -