Einn var stöðvaður á brjálæðislegum hraða af lögreglunni í nótt, eftir því sem fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Viðkomandi var á nær tvöföldum hámarkshraða eða 158 km/klst þar sem hámarkshraði var 80 km/klst. Atvikinu sinntu lögreglumenn í stöð 4, sem sinnir Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að ökumaðurinn var réttindalaus og hafði aldrei hlotið ökuleyfi.
Þá stöðvaði lögreglan í Garðabæ og Hafnarfirði mann grunaðan um að aka undir áhrifum vímuefna. Ekki komu nánari upplýsingar fram í dagbókinni.