Jóladagsnótt var nokkuð róleg á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt dagbók lögreglunnar en einn aðili var vistaður í fangageymlu.
Í tvígang barst tilkynning vegna slagsmála og láta í miðbæ Reykjavíkur en í bæði skiptin voru slagsmálahundarnir farnir af vettvangi þegar lögreglu bar að garði.
Ökuníðingur var stöðvaður í akstri en hann hafði keyrt eins og vitleysingur miðað við aðstæður, missti stjórn á afturenda bifreiðarinnar nærri öðrum bifreiðum, skipti um akrein fimm sinnum án þess að gefa stefnuljós, keyrði á 90 til 100 kmh í mikilli hálku, snjó og erfiðum aðstæðum. Ökumaðurinn viðurkenndi brotið og var málið klárað með vettvangsskýrslu.
Í Grafarholtinu rann strætisvagn á mannlausa bifreið og á ruslaskýli sem kastaðist í aðra bifreið, engin meiðsl urðu á fólki. Þá var tilkynnt um þjófnað á bifreið en hún fannst síðar um nóttina.