Glæsihúsið Öldugata 16 í Reykjavík er auglýst til sölu á vef sænsku fasteignasölunnar Skeppsholmen Sotheby’s International Realty í Svíþjóð á 4,2 milljónir Bandaríkjadala eða jafnvirði 545 milljóna íslenskra króna. Húsið er tæplega 318 fermetrar að flatarmáli og brunabótamat þess er rúmar 130 milljónir króna.
Í húsinu er 106 fm íbúð á hæð og 108 fm íbúð í risi og 63,5 fm íbúð í kjallara. Bílskúrinn er 40 fm og fylgir 461,3 fm lóð eigninni.
Fasteignamat eignarinnar er tæpar 144 milljónir króna og fyrirhugað fasteignamat árið 2022 er 150 milljónir króna.
Mathias Martinsson,sænski fasteignasalinn hjá Skeppsholmen Sotheby’s International Realty, segir aðspurður í skriflegu svari til ViðskiptaMoggans að húsið sé hið eina sem fyrirtækið er með í sölu á Íslandi þessa stundina. Hann segir að salan sé unnin í samstarfi við íslenskan fasteignasala sem þekki og skilji markaðinn hér heima, segir Martinsson í tölvupósti til ViðskiptaMoggans.