Olga Ágústdóttir, fyrrverandi fornbókasali, er látin en hún var 89 ára gömul. Mbl.is greindi frá andláti hennar.
Olga fæddist í Bolungarvík árið 1935 og voru foreldrar hennar Valgerður Kristjánsdóttir og Sigurður Ágúst Elíasson.
Eftir að hafa lokið námi bæði hérlendis og erlendis kom Olga við hjá ýmsum fyrirtækjum áður en hún hóf rekstur fornbókabúðar. Hún starfaði meðal annars hjá KEA, SÍS, Kaupfélagi Borgfirðinga á Akranesi og ferðaskrifstofunni Útsýn. Þá var hún einnig um tíma ritari hjá tónskáldinu Jóni Leifs og kenndi vélritun og bókfærslu á Akureyri.
Olga keypti fornbókabúðina Fróða á Akureyri árið 1984 og rak hana í tæp 40 ár en lengst af var hún ein í rekstrinum og var verslun hennar þekkt fyrir mikið og gott úrval.
Olga lætur eftir sig sex börn.