Ólafur Þ. Jónsson, eða Óli kommi eins og hann var gjarnan kallaður, lést í gær, 89 ára að aldri.
Ólafur fæddist í Reykjavík 14. júní árið 1934. Kom hann víða við á lífsleiðinni en um tíma vann hann sem skipasmiður hjá Skipavík í Stykkishólmi og sem vitavörður í Galtavita, í Svalvogsvita og Hornbjargsvita en hann var síðasti vitavörðurinn í þem vita. Þá bjó hann einnig í Neskaupsstað um 11 ára skeið en þar fékk hann nafnbótina Óli kommi en hann var róttækur vinstrimaður allt sitt líf, tók meðal annars þátt í stofnun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Einnig rak Óli ásamt eiginkonu sinni, Svandísi Geirsdóttur, gistiheimili á Akureyri.
Þá má til gamans gera að Ólafur sló fyrst í gegn í spurningakeppni í útvarsþætti Sveins Ásgeirssonar á sjötta áratugnum, þá um tvítugt en Ólafur vissi allt um fornsögurnar.
Ólafur var þekktur af vinum sínum og kunningjum fyrir að vera hress og skemmtilegur húmoristi og fyrir að „vera duglegur að láta íhaldið heyra það,“ eins og einn þeirra komst að orði.
Mannlíf sendir fjölskyldum og vinum Ólafs innilega samúðarkveðjur.