Ólafur Jónsson eða Óli Ufsi eins og hann er oft kallaður, fyrrverandi skipstjóri, segir að nóg sé af fiski á miðunum og segir Hafró og Svandísi Svavarsdóttur í „algjöru rugli með ráðgjöfina.“
Ólafur birti ljósmynd af hrognum á Facebook-síðu sinni og skrifaði eftirfarandi texta við myndina:
„Aldrei sést önnur eins veiði í Buktinni og sýnir okkur svo sannarlega að HAFRÓ og Svandís eru í algjöru RUGLI með ráðgjöfina. Þetta er stór fiskur og netin BÚKKUÐ! Það er í raun STÓR HÆTTULEGT þegar svona mikið af fiski ofuðr situr miðin. Hér höfum við fyrir augunum ástandið í sjónum eins og allt benti til og sjómenn sem þora að tala hafa bent á allt liðið ár. Í Guðana bænum GERUM NÚ ÞAÐ SEM ER RÉTT. Grisjum þennan stóra stofn svo hann hverfi ekki í DJÚPIÐ.“
Í samtali við Mannlíf sagði Ólafur, sem var í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn fyrir síðustu kosningar, það stórmerkilegt að vertíðarfiskurinn sé farinn að ganga inn á Faxaflóann í október.
„Þetta er stórmerkilegt mál að hér er hrygningarfiskur (vertíðarfiskurinn) farinn að ganga inn á Faxaflóann í oktober. Og ég er að heyra sögur víðar af landinu. Þessi bátur sem myndin af hrognunum var tekinn á, var með níu kíló, vel haldinn fisk. Ég sé að Maron í Njarðvík hefur verið með fjögur tonn, leggur netin þegar hann fer út og dregur þau samdægurs. Eina sem heldur aftur af mönnum er kvótinn. Menn vilja ekki verða kvótalausir. En þjóðin er að missa sennilega af einni sinni lang lang stærstu vertíð í áraraðir. Og markaðir sveltir í Evrópu.“