Evrópusambandið leggur til að áframhaldandi ferðatakmarkanir verði í gildi meðal aðildarríkja sinna til 15. maí. Ríki eru þegar farin að staðfesta framlengingu og hyggst Ísland gera það sama. Þetta kom fram á upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar í hádeginu.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá því að of mörgum spurningum væri enn ósvarað hvað ferðalög erlendis varðar til að spá til um hvernig næstu misseri verða. Hún benti á að viðbrögð annarra ríkja spila stórt hlutverk.
Spurð út í flæði ferðamanna og ferðalög Íslendinga erlendis næstu vikur og mánuði sagði Svandís að ómögulegt væri að segja til um hvernig því verður háttað að svo stöddu. „Við þurfum að sjá hvað önnur ríki eru að hugsa,“ sagði Svandís. „Sum ríki eru ekki einu sinni komin áleiðis með að upplifa sinn topp,“ benti Svandís á.
Hún sagði ákvörðun um ferðatakmarkanir vera flókið samtal á milli ríkja. Hún greindi frá því að íslensk yfirvöld væru í stöðugu samtali við önnur ríki. „Við erum að eiga samtöl við Norðurlöndin, Evrópu og fleiri hluta heimsins,“ sagði Svandís.