Leit að sjómanninum sem féll útbyrðis af fiskiskipi í Faxaflóa á laugardaginn, heldur áfram í morgunsárið. Landhelgisgæslan hefur stækkað leitarsvæðið á Faxaflóa umtalsvert.
Í svari Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn Mannlífs kemur fram að leitin í dag fari fram um 25 sjómílur norðverstur af Garðskaga.
„Leitarsvæðið hefur verið stækkað. Leitin fer fram um 25 sjómílur norðvestur af Garðskaga. Í gær var leitað á svæði sem var um 10×10 sjómílur en í dag er svæðið 18×18 sjómílur. Varðskipið Þór var á staðnum í nótt og hóf leit í birtingu.“
Þá segir Gæslan að Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar verði kölluð út fyrir hádegi til leitar og þá er einnig björgunarskipið Oddur V. Gíslason, frá Landsbjörg við leit.
En var sjómaðurinn í flotgalla er hann féll útbyrðis?
„Við getum ekki tjáð okkur um það,“ svaraði Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Gæslunnar.