Ekki verða fleiri börn útskrifuð úr Grunnskóla Grindavíkur á næstunni en öllu starfsfólki skólans hefur verið sagt upp.
47 börn útskrifuðust frá skólanum fyrir helgi en alls stóð til 62 börn myndu útskrifast en 15 börn skiptu um skóla eftir allar þær hamfarir sem hafa dunið yfir í Grindavík og núna búa þau börn um land allt. Eysteinn Kristinsson, skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur, segir tilfinninguna vera blendna en honum finnst starfsfólkið hafa sýnt mikla samstöðu og styrk að láta hlutina ganga upp þetta skólaár. Hann telur að starfsfólkið verði fljótt að finna aðra vinnu vegna þess að sé það frábært starfsfólk enda hafi áskoranirnar verið margar undanfarið.
Krefjandi aðstæður
Eysteinn telur að þetta hafi tekið mikið á börnin í Grindavík, sem og kennara sem kenndu við skólann en ekki sé algengt að fólk þurfi að flytja vegna náttúruhamfara.
„Oftast flytur fólk af fúsum og frjálsum vilja, það er ekki nauðbeygt til þess. Þetta er mun erfiðara svona. Í Grindavík er mikið íþróttasamfélag og samheldið samfélag í heild. Það eru miklar áskoranir við að halda einhvern veginn utan um þessa tæplega 4.000 einstaklinga sem dreifast vítt og breitt um landið, þó flestir séu á suðvesturhorninu,“ sagði við mbl.is um málið.