Lögreglu bárust tvær tilkynningar um ölvunarakstur í gærkvöldi en þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Það sem var heldur óvanalegt við síðari tilkynninguna var það að ökumaðurinn sjálfur hafði samband við lögreglu og gaf upp staðsetningu.
Þegar lögregla kom á vettvang sagðist ökumaðurinn hafa áttað sig á því að hann gæti ekki ekið bílnum lengur sökum ölvunar og hann vildi ekki stofna öðrum í hættu. Maðurinn var handtekinn en og færður á lögreglustöð en hann var látinn laus að blóðsýnatöku lokinni. Að öðru leyti var nóttin hjá lögreglu heldur róleg.