Fjölmiðlamaðurinn fyrrverandi og skemmtikrafturinn Ómar Ragnarsson skrifaði færslu á bloggsíðu sinni í gær þar sem hann talar um væntanleg gos á Reykjanesinu en Ómar hefur gríðarlega reynslu en hann hefur fjallað um ófá eldgos í gegnum áratugina sem fréttamaður Rúv.
Í fréttum Rúv í gær sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur að verulegar líkur séu á eldgosi á Reykjanesinu innan árs og þá jafnvel að þau komi upp á mörgum stöðum samtímis. Ómar tiltekur nokkra staði þar sem eldgos gæti valdið tjóni.
„Það eru margir staðir á svæðinu milli Eldeyjar, Svartsengis og Grindavíkur, þar sem eldgos gæti gert usla.“
Þá segir Ómar að ef gysi í sjó gæti það valdið gríðarlegu tjóni en bendir á að fleiri verðmæti séu á svæðinu.
„Gos í sjó gæti valdið miklu tjóni, því að undir vatni eða jökli koma oft skæð öskugos.
En það eru fleiri verðmæti þarna sem eru bæði dýr og viðkvæm. Reykjanesvirkjun er verðmætt mannvirki aðeins örfáa kílómetra inni á landi, og af Eldvörpum og Stapafelli má sjá, að það er óþægilega stutt í Svartsengisvirkjun með sínu Bláa lóni, að ekki sé nú talað um byggðina í Grindavík.“
Að lokum talar Ómar um gosið í Geldingadal sem var hálfgert túristagos.
„Hraunið í Geldingadalagosinu kom upp á alveg einstaklega heppilegum stað og ekki hægt að treysta á að gosin, sem nú sýnist vera hætta á að komi upp á nýju eldvirknistímabili valdi jafn litlu tjóni og verði jafnframt að jákvæðri auglýsingu fyrir landið.“