Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Ómar R. Valdimarsson vann mál gegn fyrrum skjólstæðingi – Úrskurðarnefnd lögmanna gerð afturreka

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lögmaðurinn Ómar R. Valdimarsson vann mál gegn fyrrum skjólstæðingi sínum í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Með dóminum ógilti Héraðsdómurinn úrskurð úrskurðarnefndar lögmanna í máli sem hinn stefndi hafði kvartað yfir starfsháttum Ómars sem lögmanns.

Í gær vann lögmaðurinn umdeildi, Ómar R. Valdimarsson mál gegn manni sem hafði kvartað undan starfsháttum Ómars til úrskurðarnefndar lögmanna en hann hafði verið lögmaður hans og eiginkonu þess stefnda í skilnaðarmáli þeirri. Krafðist Ómar þess að úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna í máli nr. 7/2023 yrði felldur úr gildi.

Tildrög málsins

Um tildrög málsins segir í dómnum:

Tildrög málsins eru þau að stefndi stóð í skilnaði við maka sinn og gætti stefnandi, sem er lögmaður, hagsmuna makans. Veitti stefndi umboð til stefnanda til að ganga frá því máli. Mætti stefnandi til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 8. desember 2022 og lagði fram beiðni um skilnað fyrir hönd makans, en kvaðst jafnframt  mæta í umboði stefnda. Af hálfu stefnda var litið svo á að hann hefði áður verið búinn að afturkalla umboð sitt til stefnanda. Þá hefði stefnandi að mati stefnda ekki getað gætt hagsmuna stefnda þar sem þeir hefðu skarast á við hagsmuni makans. Af þessu tilefni kvartaði stefndi til úrskurðarnefndar lögmanna 14. mars 2023 vegna starfshátta stefnanda. Undir rekstri málsins fyrir nefndinni lagði stefnandi fram tilkynningu heimilislæknis sonar stefnda til barnaverndar, þar sem lýst er áliti læknisins á ástandi barnsins og grun hans um hugsanlega kynferðislega háttsemi stefnda í garð barnsins. Varð sú gagnaframlagning til þess að stefndi lagði fram aðra kvörtun til nefndarinnar þar sem kvartað var sérstaklega undan þeirri framlagningu sem stefndi taldi meðal annars brjóta gegn friðhelgi einkalífs síns og gegn trúnaðarskyldum stefnanda í sinn garð.“

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu þann 7. nóvember 2023, að Ómar hefði tekið að sér hagsmunagæslur fyrir stefnda í andstöðu við 6. mgr. 11. gr siðareglna lögmanna, „þ.e. í andstöðu við við bann siðareglna lögmanna gegn því að lögmaður taki að sér hagsmunagæslu fyrir skjólstæðinga í sama máli sem eiga skarandi hagsmuni, eða eftir atvikum skyldum hans til að gera viðeigandi úrbætur eftir að honum varð sá hagsmunaárekstur ljós,“ eins og það er orðað í dómnum. Var sú háttsemi Ómars ekki talin samrýmast „góðum lögmannsháttum“ samanber 1.mgr. 27. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Aukreitis taldi úrskurðarnefndin að það að Ómar skyldi leggja fram án þess að tilefni var til, áðurgreint skjal frá lækni þar sem viðkvæmar persónuupplýsingar barns og hins stefnda var að finna, „samrýmdist ekki þeirri tillitssemi sem lögmönnum bæri að sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna í skilningi 34. gr. siðareglna lögmanna.“ Var Ómari gert að sæta áminningu auk þess að greiða stefnda 201.500 krónur í málskostnað.

- Auglýsing -

Sætti sig ekki við úrskurðinn

Ómar sætti sig ekki við þann úrskurð og höfðaði því mál til að fá honum hnekkt. Hélt hann því meðal annars fram að málsatvikum hafi verið ranglega lýst í úrskurði nefndarinnar. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir orðrétt:

Stefnandi byggir dómkröfu sína á því að málsatvikum sé ranglega lýst í úrskurði nefndarinnar. Stefndi hafi sannarlega veitt stefnanda umboð sem ekki hafi verið afturkallað. Stefndi og maki hans hafi í reynd verið samstíga um efni samkomulags þeirra á fundi hjá stefnanda. Ekki hafi verið ljóst að hagsmunir stefnda og þáverandi maka hans sköruðust eins og atvikum hafi verið háttað. Nauðsynlegt hafi verið að leggja fram fyrrgreinda tilkynningu læknis í því skyni að nefndin gæti leyst úr málinu og hafi það verið liður í vörnum stefnanda sem honum hafi verið nauðsynlegt að grípa til. Skjalið hafi rennt stoðum undir málsatvikalýsingu stefnanda og um leið hrakið lýsingu stefnda á atvikum á skrifstofu stefnanda 25. nóvember 2022. Lýsingar stefnda á málsatvikum til nefndarinnar hafi verið rangar. Úrskurður nefndarinnar hafi verið haldinn fjölþættum ógildingarannmörkum. Vegna þeirra beri að ógilda úrskurðinn, sbr. ákvæði 5. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998, en það kveði á um að þegar máli sé lokið fyrir úrskurðarnefndinni sé aðila að því heimilt að leita fyrir dómi ógildingar á úrskurði hennar.

- Auglýsing -

Fram kemur einnig í dómnum að sá stefndi hafi ekki sett fram neinar efnisvarnir gegn dómkröfu Ómars og hafi ekki skilað greinargerð í málinu. „Við þessar aðstæður telst stefndi ekki hafa sett fram nein rökstudd mótmæli gegn kröfu stefnanda, þar á meðal gegn málatilbúnaði stefnanda um að röng málsatvikalýsing hafi verið lögð til grundvallar í hinum umþrætta úrskurði,“ segir í dómnum og er bætt við: „Þannig ber að dæma málið eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem er samrýmanlegt framkomnum gögnum, nema gallar séu á málinu sem varði frávísun þess án kröfu, sbr. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.“

Mat dómurinn sem svo að engir gallar hafi verið á málatilbúnaði Ómars í málinu. í dómnum segir ennfremur: „Við mat á því hvort framlögð gögn séu í samræmi við kröfu stefnanda á hendur stefnda verður ekki fram hjá því litið að í málinu liggur fyrir skjal sem undirritað er af lögmanni stefnanda og þeim lögmanni sem gætti hagsmuna stefnda við fyrirtöku málsins fyrir dómi áður en þingsókn hans féll niður. Í skjalinu kemur fram að aðilar séu ásáttir um að hinn umþrætti úrskurður, sem tilkominn var vegna kvartana stefnda, verði felldur úr gildi.

1-0

Í dómsorðinu segir einfaldlega: „Felldur er úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna í máli nr. 7/2023.“

Ómar R. Valdimarsson var að vonum ánægður með dóminn en hann birti skjáskot af niðurstöðunni á samfélagsmiðlum og skrifaði við hana:
„Ómar: 1 stig Úrskurðarnefnd lögmanna: 0 stig.“

1-0.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -