Fimmtudagur 26. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Önnur atlaga að Sigríði í farvatninu en VG fær einnig sinn skammt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Úrskurður Mannréttindadómstóls Evrópu þess efnis að skipun dómara við Landsrétt hafi ekki verið í samræmi við lög mun enn og aftur setja þrýsting á Sigríði Anderdersen, dómsmálaráðherra, um að segja af sér. En þrýstingurinn mun ekki bara beinast gegn Sigríði heldur einnig þingflokki Vinstri grænna sem hingað til hefur staðið vörð um ráðherrann.

Skipan dómara í Landsrétt var afar umdeild á sínum tíma eftir að Sigríður tók fjóra umsækjendur fram yfir þá sem hæfisnefnd hafði lagt til að yrðu skipaðir. Einn þessara dómara var Arnfríður Einarsdóttir sem dæmdi í máli manns sem var dæmdur fyrir akstur undir áhrifum vímuefna og án ökuréttinda. Maðurinn skaut málinu til Mannréttindadómstólsins þar sem hann taldi sig ekki hafa fengið réttláta málsmeðferð vegna þess að ólöglega hafi verið staðið að skipan Arnfríðar. Undir þau rök tók dómstóllinn.

Segja má að dómurinn setji íslenskt réttarkerfi í uppnám. Þannig þarf nú að svara því hvort allir þeir dómar sem Arnfríður, og hinir þrír dómararnir sem Sigríður tók fram yfir, lúti sömu lögmálum. Sömuleiðis hvort þessum dómurum sé stætt á að sitja áfram í réttinum. Áður hefur ríkið þurft að greiða þeim dómurum sem Sigríður gekk framhjá milljónir króna í bætur.

Búast má við því að minnihlutinn á þingi geri harða atlögu að Sigríði vegna þessarar niðurstöðu og kröfur um afsögn hafa þegar verið settar fram. Eitt ár er liðið síðan Sigríður stóð af sér vantrauststillögu með 33 atkvæðum gegn 27. Þar greiddu tveir þingmenn VG, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, atkvæði með vantrausti en Miðflokksmaðurinn Bergþór Ólason greiddi ekki atkvæði. Ljóst er að þrýstingurinn á Sigríði verður ekki minni í þetta skiptið.

En það er ekki bara Sigríður sem mun sæta þrýstingi vegna málsins því spjótin munu einnig beinast að Katrínu Jakobsdóttur og þingliði hennar. VG gagnrýndi á sínum tíma harðlega hvernig staðið var að skipun dómara í Landsrétt en taflið snérist við þegar flokkurinn tók sæti í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þá stóðu VG-liðar, að þeim Rósu Björk og Andrési Inga undanskildum, meðal annars með þeim rökum að atkvæðagreiðslan um vantraust snérist í raun og veru um hvort ríkisstjórnin stæði eða falli.

Í ljósi þess vafa sem ríkir um stöðu Landsréttar um þessar mundir er óhjákvæmilegt annað en að spjótunum verði beint að VG í þessari umræðu, ekki síst Katrínu Jakobsdóttur sem verkstjóra þessarar ríkisstjórnar.

Ofan á þetta bætist við megn óánægja með framgöngu lögreglunnar gegn hópi flóttamanna á Austurvelli í gær. Á sama tíma og VG hefur talað fyrir auknu umburðarlyndi í málefnum flóttamanna og hælisleitenda liggja fyrir frumvörp Sigríðar þar sem útlendingalög eru hert. Átökin á Austurvelli í gær eru síst til þess fallin að friða grasrótina í VG.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -